Home Fréttir Í fréttum Ætla byggja frystihús fyrir haustið á Eskifirði

Ætla byggja frystihús fyrir haustið á Eskifirði

156
0
Eskja hf. á Eskifirði mun ráðast í byggingu frystihúss fyrir uppsjávartegundir á næstu mánuðum. Fyrsti áfangi verkefnisins kostar um fimm milljarða króna, að sögn Þorsteins Kristjánssonar forstjóra Eskju. Frysting afurða mun færast í land og ráða hagkvæmnissjónarmið í þeim efnum. Fjölmörg störf munu skapast við uppbygginguna, meðal annars vegna framleiðslu á fullkomnum tæknibúnaði í hið nýja frystihús. Fyrirtækið er fyrir með fiskimjölsverksmiðju á staðnum og starfa 130 manns hjá fyrirtækinu.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í dag er það mat Þorsteins Kristjánssonar forstjóra Eskju að það sé hagkvæmara að frysta uppsjávaraflann í landi heldur en með þeim takmarkaða tækjakosti sem skip félagsins bjóða upp á í sjófrystingu. Möguleiki á hámarksnýtingu til manneldis á takmörkuðum afla í uppsjávartegundum skapast með aukinni afkastagetu frystingar í landi. Áætlað er að vinnsluskipinu Aðalsteini Jónssyni verði skipt út þegar frystihúsið verði komið í gang, vonandi í september á þessu ári.

<>

Viðamikill tækjabúnaður

Eskja hf hefur samið við tækjaframleiðandann Skagann hf. ásamt samstarfsfyrirtækjum hans um smíði og uppsetningu á búnaði í frystihúsið sem verður staðsett í nýju 7.000 fermetra stálgrindarhús á hafnarsvæði Eskifjarðar. Unnið hefur verið að uppfyllingu á svæðinu um nokkurt skeið, meðal annars með efni úr Norðfjarðargöngum. Að sögn Ingólfs Árnasonar hjá Skaganum hf. mun verkefnið mun skapa fjölmörg störf víðs vegar um landið. Hann segir stærstan hluta smíðinnar fara fram hjá Skaganum og systurfyrirtæki þess Þorgeir & Ellert hf. á Akranesi. Eins muni nokkur umsvif verða hjá samstarfsfyrirtækjunum Frost og Rafeyri á Akureyri og á Ísafirði muni systurfyriræki Skagans, 3X Technology sjá um stóran hluta smíðinnar ásamt samstarfsfyrirtækjum þar. Verkfræðistofan Efla á Austurlandi sér um hönnun hússins og mun byggingin verða í höndum verktaka á Eskifirði og í nágrenni.

Mikil uppbygging í Fjarðabyggð

Það hefur staðið yfir deiliskipulagsvinna fyrir svæðið sem tekur mið af þessari fyrirhuguðu starfsemi, að sögn Páls Björgvins Guðmundssonar bæjarstjóri í Fjarðabyggð. Þó hefur enn ekki verið sótt um byggingarleyfi eða lagðar fram teikningar að húsinu. „Við fögnum þessu verkefni eins og öðrum sem styrkja atvinnu og byggð hér í sveitarfélaginu. Það hefur verið mikil uppbygging í kringum sjávarútveginn síðustu misseri, eins hjá Loðnuvinnslunni á Fáskrúðsfirði og Síldarvinnslunni í Neskaupstað. Þessar framkvæmdir allar styrkja undirstöður atvinnulífs í Fjarðabyggð til framtíðar.“

Heimild: Rúv.is