Home Fréttir Í fréttum Endurbætur á Hafnarhúsinu kosta mörg hundruð milljónir

Endurbætur á Hafnarhúsinu kosta mörg hundruð milljónir

95
0

Velferðarráðuneytið verður flutt úr Hafnarhúsinu við Tryggvagötu á næstu vikum út af raka og myglusvepp sem hefur haft áhrif á marga starfsmenn. Illa hefur gengið að uppræta vandann og munu endurbætur á húnæðinu kosta mörg hundruð milljónir.

<>

Myglusveppurinn greindist fyrir nokkrum misserum en allar tilraunir til að uppræta vandann hafa ekki borið árangur. Húsnæðið er í eigu Faxaflóahafna sem nú hafa komist að samkomulagið við ráðuneytið um losa það undan leigusamningi.

Bolli Bollason starfandi ráðuneytisstjóri segir að sjö starfsmenn hafi fundið fyrir alvarlegum einkennum af völdum myglusvepps.

„Þetta byrjaði á því að nokkrir fóru að kvarta en svo hefur þetta verið að færast í vöxt. Í einhverjum tilvikum er fólk bara heima við núna. Við þurftum að flytja það út úr húsi. Þannig að á þessum tímapunkti var ákveðið að kanna aðra möguleika. Þegar við sáum að þetta var að breiðast út,“ segir Bolli.

Ráðist verður í viðamiklar endurbætur á húsinu en Gísli Gíslason hafnarstjóri segir að það mun kosti verulegar fjárhæðir.

„Það mun kosta fleiri hundruð milljónir. Við eigum eftir að fara yfir húsið í heild og vega og meta einstaka þætti og einstaka hluti. Sumir eru eflaust í lagi. Aðrir eru eflaust með myglu líka,“ segir Gísli.

Húsið er byggt árið 1933 en myglusveppurinn hefur aðallega fundist í viðbyggingu á fjórðu hæð sem var reist síðar. Listasafn Reykjavíkur er einnig með aðstöðu í Hafnarhúsinu og ekki er útilokað að þetta muni hafa áhrif á starfsemi safnsins.

„Við útilokum ekkert. Það þarf að fara yfir þetta í heild. Það mun kosta peninga en heilsan gengur fyrir hjá fólkinu,“ segir Gísli.

Um áttatíu manns vinna hjá velferðarráðuneytinu en Bolli segir viðbúið að flutningarnir muni kosta tugi milljóna. Leit að nýju húsnæði er þegar hafin.

Heimild: Vísir.is