Home Fréttir Í fréttum Samkeppni um hönnun bygginga í Gufunesi breytti lífinu

Samkeppni um hönnun bygginga í Gufunesi breytti lífinu

93
0
„Maður sér sig stundum á Sorpu með eitthvað sem maður keypti og maður veit ekkert hvar maður á að henda því,“ segir Arnhildur. „Því maður nær því ekki í sundur. Það er plast og stál og eitthvað fast saman. Þessi efni ættu að vera bönnuð.“ Mynd: RÚV

Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt, tók þátt í samkeppni um byggingu nýs hverfis í Gufunesi og lagði til að hverfið yrði byggt upp með endurnýttum efnivið. Hún hefur lagt áherslu á vistvænar leiðir í hönnun sinni og hlotið verðlaun fyrir.

<>

„Borgir framtíðarinnar verða byggðar úr því sem við erum með núna,“ fullyrðir Arnhildur Pálmadóttir, arkitekt. Hún hlaut nýverið viðurkenningu sem frumkvöðull í mannvirkjagerð á húsnæðisþingi fyrst allra.

Í mati dómnefndar segir meðal annars að Arnhildur hafi sýnt eftirtektarverðan kraft, framsækni, frumkvæði og árangur á sviði vistvænnar mannvirkjahönnunar. Hún er sögð hafa slegið nýjan tón í íslenskri mannvirkjahönnun með framsækinni hringrásarhugsun. Arnhildur var gestur í Svipmyndinni í Víðsjá á Rás 1.

Lág alltaf í loftinu að hún yrði arkitekt

„Ég gerði allt öfugt í lífi mínu,“ segir Arnhildur. „Ég átti dóttur mína 17 ára og fór síðan og vann sem tækniteiknari en þetta lá í loftinu,“ segir hún um drauminn um að verða arkitekt. Hún vann á verkfræði- og arkitektastofum á Íslandi og í Noregi og safnaði í reynslubankann. „Ég var orðin þrítug þegar ég fór í Listaháskólann.“

Arnhildur hélt síðan til Barcelona í framhaldsnám í Tækniháskólanum en fann sig ekki í náminu. „Þetta var svolítið gamaldags. Verkfræðileg nálgun sem ég taldi mig ekki vilja.“ Hún sótti því um nám í Institute for Advanced Architecture in Catalonia, IAAC, sem hentaði betur. „Hann er sérhæfður í nýsköpun og framúrstefnulegri útfærslu á mannvirkjagerð og það var miklu meira spennandi,“ segir hún. „Þetta nám var fullkomið.“

Heim á Húsavík í hruninu

Arnhildur var í Barcelona þegar efnahagshrunið 2008 reið yfir. „Það var hrun svo byggingariðnaðurinn fór í núll,“ segir hún. Að loknu náminu ákvað fjölskyldan því að snúa heim til Íslands. „Við ákváðum að fara aftur til Húsavíkur og leyfa stráknum okkar að alast upp þar í smá tíma.“

Arnhildur er fædd og uppalin á Húsavík og segir bæjarmyndina hafa haft áhrif á áhuga sinn á arkitektúr. „Ég hafði mikinn áhuga á umhverfi mínu,“ segir hún. „Bæði náttúrunni og öllum þessum byggingum sem eru á Húsavík.

“ Hún naut þess að vera aftur komin á æskuslóðirnar og setti þar upp vinnustofu og framleiddi ýmsan varning með leiserskurðvél sem tengdist ferðamennsku og vann samhliða því að arkitektaverkefnum. „Það var náttúrulega rosalega lítið í gangi en þetta voru verkefni sem tengdust skipulagsverkefnum og hönnun á húsum og viðbyggingum.“

Umhverfisvitund og nýtni í takt við tíðaranda

„Frá því ég útskrifaðist og þangað til ég fór að reka mína eigin stofu var svo mikið tíðarandinn að vera mikill frumkvöðull í umhverfismálum,“ segir Arnhildur. „Það var verið að byggja lítið og mikið talað um peninga.“

Arnhildur segir aðstæðurnar hafa kallað á nýjar lausnir sem voru bæði hagkvæmar og umhverfisvænar. Hún vann eitt þess konar verkefni fyrir norðan með vini sínum sem keypti lítið gistihús.“ Hann tók það allt í gegn og við breyttum því aðeins,“ segir Arnhildur. Þau lögðu áherslu á að nýta það byggingarefni sem fyrir var á staðnum og endurnýtingu almennt. „Þetta var kannski fyrsta endurnýtingarverkefnið sem við gerðum.“

Hönnunarsamkeppni breytti öllu

Þegar byggingariðnaðurinn fór að taka almennilega við sér eftir hæg ár í kjölfar hrunsins flutti fjölskyldan aftur til Reykjavíkur. Fljótlega stofnaði Arnhildur stofu, s.ap arkitektar. „Ég var orðin svöng í að fara að gera eitthvað í þessu. Ég var að nýta þessa þekkingu og ég fór af stað við að reyna að finna leiðir til að nýta byggingarefni.“

Árið 2018 var samkeppni um hönnun nýs hverfis í Gufunesi. „Það breytti lífi mínu,“ segir Arnhildur. Hún áttaði sig á því að hún gæti ekki unnið verkið ein og leitaði því til dönsku arkitektastofunnar Lendager, þekktrar stofu sem hefur unnið til verðlauna, meðal annars fyrir vistvænar byggingar. „Ég sendi þeim póst og fékk svar og við tókum þátt í þessari samkeppni saman.“ Þau lögðu til að afgangsefni í Gufunesi yrði nýtt í nýjar byggingar. „Það var fyrsta raunverulega stóra verkefnið þar sem við stungum upp á þessu.“

Arnhildur og Lendager vinna nú að verkefni fyrir Félagsbústaði. „Lítið verkefni við Vatnshólinn og við ætlum að lækka kolefnissporið um alla vega 30-40% í framkvæmdinni og endurnýta byggingarefni. Þetta er í fyrsta skipti á Íslandi sem þetta er gert opinskátt,“ segir Arnhildur um verkefnið. „Þó höfum við í sveitum landsins endurnýtt byggingarefni í gegnum aldirnar.“

Framtíðarverkefni um nýtingu hrauns sem byggingarefnis

„Ég er að vinna annað verkefni til hliðar sem heitir Lavaforming og snýst um að nota hraun sem byggingarefni.“ Verkefnið er tilraunakennd hugmyndavinna sem Arnhildur vinnur með syni sínum sem leggur stund á nám í arkitektúr. „Við vorum að tala um hvaða byggingarefni eru íslensk,“ segir hún. „Þá eru steinefni augljós.“

Þegar eldgos hófst á Reykjanesskaga sáu þau að þar streymdi byggingarefni upp úr jörðinni og hugsuðu upp leiðir til að nýta það. „Markmiðið er að nota sem minnsta utanaðkomandi orku og nota bara orkuna sem kemur úr jörðinni.“ Arnhildur segir skemmtilegt að vinna tilraunakennd framtíðarverkefni á borð við Lavaforming.

„Það er ekki beint útópískt eða dystópískt, það er bara framtíðarverkefni,“ segir hún. „Ég veit ekki hvort það er gott eða slæmt en það togar mannvirkjagerð og hugsunina utan frá á meðan að þetta sem við erum að gera dagsdaglega með endurnýtingu á byggingarefnum er að ýta innan frá.“

Endurnýting byggingarefna framtíðin

Þegar Arnhildur lítur til framtíðar segir hún augljóst að það þurfi að hætta að nota nýtt efni. „Borgir framtíðarinnar verða byggðar úr því sem við erum með núna,“ segir hún. „Byggingarefni verða ekki innflutt frá Kína og samsett og ekki hægt að endurvinna þau.“

„Maður sér sig stundum á Sorpu með eitthvað sem maður keypti og maður veit ekkert hvar maður á að henda því,“ segir hún. „Því maður nær því ekki í sundur. Það er plast og stál og eitthvað fast saman. Þessi efni ættu að vera bönnuð.“ Hún segir að leggja ætti áherslu á innflutning efna sem hæglega má endurvinna og Lendager arkitektar ætla að halda sýningu í vor sem heitir Wasteland Ísland.

„Þar er eitt af markmiðunum okkar að skoða hvernig við getum nýtt það sem er hérna núna og hvernig væri ef við myndum ákveða að ákveðin efni séu bönnuð. Hvernig borgir gætum við byggt úr því?“ Hún segir mikilvægt að varpa þessum spurningum upp. „Ég held að það sé mikilvægt að sjá fyrir okkur heim sem gæti orðið, því hann verður aldrei alveg eins og í dag.“

Heimild: Ruv.is