Home Fréttir Í fréttum Verðmæti lóðanna hleypur á milljörðum króna

Verðmæti lóðanna hleypur á milljörðum króna

219
0
Árborg. Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

Bæjarstjóri Árborgar segir að horft sé til sölu á byggingum og lóðum sveitarfélagsins til að rétta af reksturinn.

<>

Þrátt fyrir að merki séu um viðsnúning í rekstri Sveitarfélagsins Árborgar hefur skuldasöfnun haldið áfram að aukast. Heildarskuldir sveitarfélagsins í lok árs 2022 voru 28,3 milljarðar króna, samanborið við 16,3 milljarða 2020.

Skuldaviðmið A- og B-hluta var 157% en samkvæmt lögum skal það vera undir 150% frá og með árinu 2026. Skuldir á hvern íbúa námu 2,5 milljónum króna.

Heildarskuldir og skuldbindingar sveitarfélagsins, A- og B-hluta, á fyrstu sex mánuðum ársins námu 29,7 milljörðum króna en námu 28,3 milljörðum í árslok 2022. Eigið fé var 1.157 milljónir í lok tímabilsins, samanborið við 2.472 milljónir í lok síðasta árs.

Verið er að horfa til aukinnar tekjuöflunar hjá sveitarfélaginu en stefnt er á að byggingarlóðir og eignir verði seldar fyrir 800 m.kr. árið 2023 og fyrir 300 m.kr. á ári frá árinu 2024.

Mynd: Vb.is

„Sveitarfélagið á töluvert af löndum og lóðum, og eins byggingum sem er ekki verið að nýta fyrir grunnþjónustu og er þá heimilt að selja. Við fórum af stað núna um daginn í útboð með einn slíkan reit þar sem við vorum að rukka fyrir byggingarréttargjald, sem hefur ekki verið gert áður,“ segir Fjóla Steindóra Kristinsdóttir, bæjarstjóri Árborgar.

„Það gekk mjög vel og við fengum mjög góð tilboð þannig að við ætlum okkur að fara með fleiri reiti, bæði þróunarreiti og lönd og lóðir, í sölu og við erum að fara núna af stað með iðnaðarhverfi.“

Tryggvagata 36, fasteign sem er með ríflega þrjú þúsund fermetra lóð og byggingarrétt á íbúðarhúsnæði, var seld fyrir 265 milljónir króna í sumar en gert er ráð fyrir að byggja megi um 50 íbúðir á lóðinni að loknu skipulagsferli.

Aðrir reitir sem eru til skoðunar eru Björk II og III, þar sem möguleikar eru á allt að 800 íbúðum og geta til að taka á móti allt að þrjú þúsund íbúum, og Víkurheiði, þar sem tíu lóðir verða seldar eða úthlutað undir atvinnuhúsnæði.

Þá eru uppi áform um sölu lóða og uppbyggingarsvæða víðar, meðal annars á Stokkseyri og Eyrabakka, og eru framtíðarmöguleikar í þróun hjá Sandvíkursetri. Heildarverðmæti lóðanna hleypur á milljörðum króna.

„Það hefur tekið svolítinn tíma að ná utan um regluverkið, hvernig við getum hámarkað söluandvirði þessara eigna, getum við farið í byggingarréttargjald og hvað eru sveitarfélögin í kringum okkur að gera þannig við séum líka samkeppnishæf og sambærileg. Við erum búin að ná vel utan um það.“

Nánar er rætt við Fjólu í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag.

Heimild: Vb.is