Kanna á fýsileika þess að flytja Hæstarétt yfir í Safnahúsið við Hverfisgötu og Landsrétt, sem nú er í bráðabirgðahúsnæði á Kársnesi í Kópavogi, yfir í Hæstaréttarhúsnæðið, og veita Listasafni Íslands sýningarrými í gamla Landsbankahúsinu.
„Við ætlum að nýta haustmánuðina til að skoða þessar breytingar. Hvort að þær borgi sig og hvort að þær henti þessum stofnunum,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, að loknum ríkisstjórnarfundi. Þar voru húsnæðismál opinberra stofnana m.a. til umræðu.
Þá á að skoða húsnæðismál héraðsdómstólanna, Reykjaness og Reykjavíkur. „Gamli Sjómannaskólinn hefur verið nefndur í því sambandi en eins og ég segi þá hefur ekkert verið ákveðið með þetta en það er verið að kanna hvort að það sé möguleiki,“ segir Katrín.
Heimild: Mbl.is