Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Bundið slitlag lagt á nýja þjóðveginn um Teigsskóg

Bundið slitlag lagt á nýja þjóðveginn um Teigsskóg

114
0
Úr Þorskafirði í dag, Klæðningarflokkur Borgarverks leggur bundið slitlag á fyrsta kaflann. BORGARVERK/EINAR ÖRN ARNARSON

Klæðningarflokkur frá Borgarverki hóf í dag að leggja bundið slitlag á nýja þjóðveginn um Teigsskóg í utanverðum Þorskafirði. Stefnt er að því að vegurinn umdeildi verði opnaður umferð í lok októbermánaðar.

<>

Þessi níu kílómetra kafli á leiðinni milli Þórisstaða og Hallsteinsness er einn margra áfanga í endurbyggingu Vestfjarðavegar um Gufudalssveit, milli Skálaness og Bjarkalundar. Verktakinn Borgarverk hófst handa við þennan verkáfanga í lok maímánaðar í fyrra, fyrir fimmtán mánuðum, eftir að nærri tuttugu ára deilum lauk um vegstæðið.

Tjaran lögð út. Fjær fyrir miðri mynd má sjá hin tignarlegu Vaðalfjöll.
BORGARVERK/EINAR ÖRN ARNARSON

Kaflinn sem byrjað var að klæða í dag er 2,3 kílómetra langur, að sögn Einars Arnar Arnarsonar, sviðsstjóra klæðningar hjá Borgarverki. Þessi fyrsti kafli liggur frá slitlagsenda núverandi vegar við rætur Hjallaháls og að eyðibýlinu Gröf.

Enn á eftir að búa kaflann milli Grafar og Hallsteinsness undir slitlag en stefnt er að því að ljúka klæðningunni og opna veginn eigi síðar en 30. október næstkomandi. Þar með verður hægt að leggja af 336 metra háan fjallveg um Hjallaháls.

Nýi vegurinn um Teigsskóg telst láglendisvegur. Fjær til vinstri glittir í nýju Þorskafjarðarbrúna.
BORGARVERK/EINAR ÖRN ARNARSON

Klæðningarflokkurinn mun einnig leggja bundið slitlag á nýjan veg um austanverðan Djúpafjörð, sex kílómetra kafla milli Hallsteinsness og Djúpadals. Hann mun tímabundið gegna hlutverki Vestfjarðavegar, eða þar til lokið verður síðustu verkþáttunum í endurnýjun þjóðvegarins um Gufudalsveit; þverun Gufufjarðar og Djúpafjarðar. Óvíst er hvenær það verður en á meðan þurfa vegfarendur að aka áfram um Ódrjúgsháls.

Stefnt er að því að vegfarendur geti ekið nýja veginn um mánaðamótin október-nóvember.
BORGARVERK/EINAR ÖRN ARNARSON

Ráðamenn Vegagerðarinnar höfðu vonast til að vegagerðinni um Gufudalssveit lyki á árinu 2024, eða á næsta ári. Núgildandi samgönguáætlun reyndist hins vegar vanfjármögnuð. Drög að nýrri samgönguáætlun, sem innviðaráðherra kynnti í vor, miða við að verklokum seinki um þrjú ár og að þau verði á árinu 2027.

Heimild: Visir.is