Nýbyggðum íbúðum hefur fjölgað umtalsvert á þessu ári og enn er kraftur í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis. Þetta kemur fram í greiningu ráðuneytisins á tölum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Samkvæmt tölum úr Fasteignaskrá HMS hefur fjöldi íbúða í byggingu haldist nokkuð stöðugur frá áramótum og er við sögulegt hámark eða vel yfir 7.000 talsins. Íbúðum sem lokið er byggingu við hefur fjölgað töluvert það sem af er ári miðað við sama tíma í fyrra samkvæmt tölum stofnunarinnar. Á það jafnt við um höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina.
Fjöldi íbúða á fyrsta byggingarstigi jókst um 36% milli ára samkvæmt nýjustu talningu HMS frá mars. Þá sýna tölur Hagstofunnar að velta í byggingariðnaði, sem ætti að gefa hvað bestu myndina af umsvifum í greininni, hefur haldið áfram að aukast hratt á þessu ári á föstu verðlagi. Áfram er fylgst grannt með áhrifum vaxtahækkana á byggingu húsnæðis en enn sem komið er eru engin skýr merki komin fram um að íbúðum í byggingu hafi fækkað.
Þrátt fyrir öra fólksfjölgun virðist fjöldi íbúa á hverja íbúð hafa minnkað frá árunum 2018-2020. Uppbygging hefur því verið í takti við fólksfjölgun. Á þann mælikvarða virðist ekki vera áberandi skortur á íbúðum í samanburði við undanfarinn áratug. Stjórnvöld munu áfram stuðla að tryggu framboði íbúða, m.a. með áframhaldandi fjármögnun almenna íbúðakerfisins eins og tilkynnt var um í júní.
Heimild: Stjornarradid.is