Home Fréttir Í fréttum Biðja verktaka um að tryggja vinnusvæðin sín

Biðja verktaka um að tryggja vinnusvæðin sín

95
0
Annað kvöld má bú­ast við vind­hviðum frá 13 m/​s og allt að 40 m/​s. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slysa­varn­ar­fé­lagið Lands­björg biður al­menn­ing um að taka trampólín niður og færa garðhús­gögn og aðra lausa­muni inn áður en óveðrið skell­ur á annað kvöld. Biðlar Lands­björg einnig til verk­taka að tryggja vinnusvæðin sín.

<>

Veður­stofa Íslands hef­ur gefið út gul­ar veðurviðvar­an­ir á stór­um hluta lands­ins annað kvöld. Bú­ast má við vind­hviðum frá 13 m/​​s og allt að 40 m/​​s. Fólk er hvatt til að ganga frá lausa­mun­um og einnig að huga að niður­föll­um til að forðast vatns­tjón

Land­helg­is­gæsl­an hef­ur þar að auki varað við stór­streymi. Sam­kvæmt út­reikn­ing­um verður um að ræða hæsta stór­streym­is­flóð árs­ins, en fyr­ir Reykja­vík reikn­ast flóðhæðin 4,6 metr­ar.

Jón Þór Víg­lunds­son – Upp­lýs­inga­full­trúi Slysa­varn­ar­fé­lags­ins Lands­bjarg­ar. Ljós­mynd/​Lands­björg

„Hlut­ir geta farið að fjúka á hús“

„Í síðasta slæma veðri, föstu­dag­inn langa, þá voru lang­flest verk­efni björg­un­ar­sveita bund­in við að sinna bygg­ing­ar­svæðum. Þar var und­ir­bún­ing­ur fyr­ir veðrið ekki nægi­lega góður,“ seg­ir Jón Þór Víg­lunds­son, upp­lýs­inga­full­trúi Lands­bjarg­ar, í sam­tali við mbl.is.

Því vill hann biðja verk­taka um að passa upp á all­ar klæðning­ar, ein­angr­un­ar­plöt­ur, girðing­ar, still­ansa og létt­ara bygg­ing­ar­efni, svo það fari ekki á fok.

„Áður en fólk fer í vetr­ar­frí er gott að nýta vinnu­dag­inn til þess að tryggja vinnusvæðið. Það er sér­stak­lega mik­il­vægt núna þar sem þessi vinnusvæði eru flest inni í þéttri byggð, þannig hlut­ir geta farið að fjúka á hús.“

Heimild: Mbl.is