Slysavarnarfélagið Landsbjörg biður almenning um að taka trampólín niður og færa garðhúsgögn og aðra lausamuni inn áður en óveðrið skellur á annað kvöld. Biðlar Landsbjörg einnig til verktaka að tryggja vinnusvæðin sín.
Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular veðurviðvaranir á stórum hluta landsins annað kvöld. Búast má við vindhviðum frá 13 m/s og allt að 40 m/s. Fólk er hvatt til að ganga frá lausamunum og einnig að huga að niðurföllum til að forðast vatnstjón
Landhelgisgæslan hefur þar að auki varað við stórstreymi. Samkvæmt útreikningum verður um að ræða hæsta stórstreymisflóð ársins, en fyrir Reykjavík reiknast flóðhæðin 4,6 metrar.
„Hlutir geta farið að fjúka á hús“
„Í síðasta slæma veðri, föstudaginn langa, þá voru langflest verkefni björgunarsveita bundin við að sinna byggingarsvæðum. Þar var undirbúningur fyrir veðrið ekki nægilega góður,“ segir Jón Þór Víglundsson, upplýsingafulltrúi Landsbjargar, í samtali við mbl.is.
Því vill hann biðja verktaka um að passa upp á allar klæðningar, einangrunarplötur, girðingar, stillansa og léttara byggingarefni, svo það fari ekki á fok.
„Áður en fólk fer í vetrarfrí er gott að nýta vinnudaginn til þess að tryggja vinnusvæðið. Það er sérstaklega mikilvægt núna þar sem þessi vinnusvæði eru flest inni í þéttri byggð, þannig hlutir geta farið að fjúka á hús.“
Heimild: Mbl.is