Home Fréttir Í fréttum Ætlar að tvöfalda uppbyggingu til að bregðast við niðursveiflu

Ætlar að tvöfalda uppbyggingu til að bregðast við niðursveiflu

172
0
Sigurður Ingi Jóhannsson ætlar að tvöfalda uppbyggingu á húsnæði fyrir tekjulága til að bregðast við samdrátt í uppbyggingu húsnæðis. Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ segir brýnt að bregðast við svo málið þvælist ekki fyrir í næstu kjarasamningum. VÍSIR

Framboð á nýjum íbúðum virðist vera að dragast saman þrátt fyrir að ríki og borg hafi gert með sér tímamótasamkomulag á síðasta ári um fjölgun þeirra. Innviðaráðherra segist ætla að tvöfalda uppbyggingu leiguíbúða á næstu þremur árum.

<>

Innviðaráðuneytið, Samband íslenskra sveitarfélaga og HMS kynntu það sem þau kölluðu tímamótasamning í fyrra um byggingu fjögur þúsund íbúða árlega næstu fimm ár.

Á húsnæðisþingi ráðuneytisins og HMS á Hótel Hilton í gær kom hins vegar fram að það væru blikur á lofti með að þetta náist. Samband íslenskra sveitafélaga hafði bent á það strax í vor.

Elmar Erlendsson framkvæmdastjóri lánasviðs hjá HMS segir hátt vaxtarstig og verðbólgu draga úr uppbyggingu á húsnæði.
VÍSIR/EINAR

Elmar Erlendsson framkvæmdastjóri lánasviðs hjá HMS segir hátt vaxtarstig og verðbólgu draga úr uppbyggingu á húsnæði.

„Við erum búin að sjá skýrar vísbendingar um það undanfarið að það hafi verulega hægt á sem leiðir til þess að það muni fækka í fullbúnum íbúðum á næstu árum. Út af efnahagsástandinu virðast byggingaraðilar vera að halda að sér höndum þar til aðstæður breytast,“ segir Elmar.

Ætlar að tvöfalda uppbyggingu

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra kynnti nýja húsnæðisstefnu ríkisstjórnarinnar á þinginu og segir að þegar hafi verið ákveðið að bregðast við núverandi stöðu með ýmsu móti.

„Við ætlum að meira en tvöfalda almennar íbúðir á leigumarkaði fyrir hina tekjulágu í ár og næstu tvö ár með  stofnframlögum. Þetta eru í heild 2.800 íbúðir á þessum þremur árum. Þá breyttum við markmiðum í kringum hlutdeildarlánin í sumar sem er stuðningur fyrir þá sem kaupa húsnæði í fyrsta skipti með stuðningi hins opinbera. Sá markaður tók verulega við sér í sumar,“ segir Sigurður.

Brýnt að allir taki þátt

„ Byggingarverktakar eru held ég alveg í stakk búnir að bæta í og byggja en við þurfum að ná þessu efnahagsjafnvægi. Það er ekki bara Seðlabankinn og ríkisvaldið sem þurfa að koma að því, þar þurfa aðilar vinnumarkaðarins líka að koma að. Ef við leggjumst öll á plóginn þá náum við verðbólgunni niður og komumst inn í betra vaxtaumhverfi,“ segir Sigurður.

Ekki er enn útlit fyrir lækkun verðbólgu en í dag kom fram að hún er aftur á uppleið eftir lækkanir síðustu mánaða. Hún mældist 7,7 prósent í ágúst og hækkaði um 0,34 prósent milli mánaða.

Brýnt að bregðast við

Finnbjörn A. Hermannsson forseti ASÍ segir að brýnt að bregðast við of lítilli uppbyggingu fyrir næstu kjarasamningalotu.

„Við höfum lagt höfuðáherslu á félagslega kerfið og munum gera það inn í komandi kjarasamningum. Þetta útspil innviðaráðherra er ágætis innlegg inn í það. Það verður hins vegar að gera þetta mjög hratt,“ segir Finnbjörn.

Aðspurður um hvort hann sé vongóður um að það verði gert svarar Finnbjörn:

„Ég veit það ekki, við sáum þessa kynningu 2019, svo aftur 2021 og svo 2022 og svo aftur núna og kannski fylgir hugur máli núna það verður bara að koma í ljós,“ segir Finnbjörn að lokum.

Heimild: Visir.is