Home Fréttir Í fréttum Segir að tímalína samgöngusáttmálans hafi verið brött

Segir að tímalína samgöngusáttmálans hafi verið brött

50
0
Mynd: RÚV – Ragnar Visage

Ólíklegt er að hægt verði að ljúka uppbyggingu, sem kveðið er á um í samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, á tilsettum tíma, að mati innviðaráðherra. Þó sé ekki þörf á meiriháttar endurskoðun sáttmálans.

<>

Innviðaráðherra telur ekki þörf á meiriháttar endurskoðun á samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Hann sé aðeins hluti af stærra verkefni samgangna á öllu landinu. Þó sé ólíklegt að hægt verði að ljúka uppbyggingu sáttmálans á tilsettum tíma.

Nú þegar hafa verið byggðir upp hjólastígar í samræmi við samgöngusáttmálann, og framkvæmdir við Arnarnesveg eru hafnar. Þá verður fyrstu hluti Borgarlínu — brú yfir Fossvog sem tengir Kársnes og flugbrautarenda Reykjavíkurflugvallar, vestan Nauthólsvíkur — borðinn út í haust.

Væntingarnar miklar og tímalínan brött

Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir að væntingarnar hafi verið miklar og tímalínan brött þegar sáttmálinn var undirritaður fyrir fjórum árum. Verkefni sáttmálans hafi vaxið í umfangi síðan.

„Það hefur líka gerst að vegna verðbólgu og utanaðkomandi kostnaðarhækkana hefur samgönguvísitalan hækkað um 30%, ekki bara á verkefnum sáttmálans, heldur á öllum framkvæmdum í samgöngukerfinu,“ segir Sigurður Ingi.

Samgöngusáttmálinn eitt púsl í stórri mynd

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði um helgina — á flokksráðsfundi Sjálfstæðisflokksins — að fjárhagslegar forsendur til að fara í ýmis verkefni væru ekki lengur til staðar.

Ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu vinna að því að uppfæra hluta sáttmálans. Sigurður segir að meðal annar sé verið að fjalla um hvernig ríkið kemur til með að styrkja og styðja almenningssamgöngur. Einnig sé verið að endurskoða framkvæmdar- og fjárhagsáætlanir, tímalínur verkefna og mörkun þess sem heyrir undir sveitarfélög.

Þeirri vinnu á að ljúka í nóvember. Sigurður telur ekki þörf á meiriháttar endurskoðun á samgöngusáttmálanum.

Mynd: RÚV – Ragnar Visage

„Það er þannig að kostnaðurinn hefur vaxið mikið og það sem við vorum að horfa á 2019 að væri hægt að gera á fimmtán árum verður örugglega ekki hægt,“ segir Sigurður.

„Við þurfum þá að horfa kannski til lengri tíma. Verkefnið fer hins vegar ekki frá okkur. Ef við ætlum að byggja upp samgöngur, bæði hérna á höfuðborgarsvæðinu en einnig á öllu landinu á sama tíma þurfum við að finna leiðir til þess. Samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins er eitt púsl í þeirri stóru mynd en ekki eina myndin.“

Heimild: Ruv.is