Home Fréttir Í fréttum Skólabúðir rísa við Hringbraut í Reykjanesbæ

Skólabúðir rísa við Hringbraut í Reykjanesbæ

107
0
Skólabúðir rísa við Hringbraut Skólabúðirnar við Hringbraut leysa vanda Holtaskóla og Myllubakkaskóla á meðan endurbætur standa yfir á húsnæði þeirra, að því loknu verða stofurnar líklega færðar þangað sem þörfin verður mest. VF/Hilmar Bragi

Grunnskólastarf í Reykjanesbæ stendur frammi fyrir miklum áskorunum þessi misserin en upp hefur komið mygla víða í húsnæðum skóla bæjarins og því þurft að grípa til viðamikilla viðgerðarframkvæmda í kjölfarið.

<>

Þetta hefur töluverð áhrif á störf skólanna en starfsfólk Reykjanesbæjar hefur unnið ötullega að því að finna viðunandi lausnir og fór í það að reisa skólabúðir á malarvellinum við Hringbraut úr færanlegum einingum.

Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar, segist vona að það eigi eftir að fara vel um nemendur í skólabúðunum við Hringbraut þar sem tólf skólastofur verða notaðar til kennslu á komandi árum. VF/JPK

„Þetta er alveg að bjarga okkur í þessari neyð sem við erum í, snjallræði hjá umhverfissviðinu og eignaumsýslunni að koma með þessa lausn,“ segir Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar, í samtali við Víkurfréttir.

„Við reiknum með að þetta ástand vari næstu þrjú árin, eða á meðan við stöndum í þessum mestu framkvæmdum við Myllubakkaskóla og Holtaskóla. Núna í byrjun skólaárs er engin starfsemi í skólunum, hvorki í Myllubakkaskóla né Holtaskóla.“

Helgi segir að skólarnir séu undirlagðir vegna viðgerða og viðhalds svo það var ekki einfalt að finna viðeigandi lausnir fyrir nemendur skólanna. Nemendur í sjöunda til tíunda bekk verða í Keili í vetur, sjötti bekkur í Merkinesi í Hljómahöll, fjórði og fimmti bekkur verða í kálfum á lóð Holtaskóla og á efri hæð íþróttahússins á Sunnubraut.

Fimmti til sjöundi bekkur Myllubakkaskóla verður í forsmíðuðu einingunum sem hafa verið á skólalóð Myllubakkaskóla og áttundi til tíundi bekkur verður í Íþróttaakademíunni. Fyrsti, annar og þriðji bekkur Holtaskóla og nemendur í fyrsta til fjórða bekk Myllubakkaskóla verða í skólabúðunum við Hringbraut.

Skólarnir vinna saman
„Þannig að það verður náin samvinna hjá Myllubakkaskóla og Holtaskóla með yngstu krakkana,“ segir Helgi. „Þar sem við erum alveg að fullnýta þessar stofur þurfum við að setja upp sérstakt starfsmannarými, það er stofa sem við leigjum frá öðrum aðila. Það verður ekki tengt skólabúðunum en þar getur starfsfólk undirbúið kennsluna og farið í kaffi og þess háttar.

Það á vonandi eftir að fara vel um nemendur í þessum úrræðum og við erum heppin að geta leitað til þessara aðila sem hafa mætt okkur vel en þetta er auðvitað mikið rask á öllu skólastarfi.“

Gert er ráð fyrir að D-álman í Myllubakkaskóla, sem er við Suðurtún, verði tilbúin um áramót og þá fari fyrsti til fjórði bekkur úr skólabúðunum við Hringbraut. „Þá getum við losað fleiri árganga í Holtaskóla úr þessum tímabundnu úrræðum og fært þá inn á malarvöllinn. Þessi börn sem eru í skólabúðunum munu borða hádegismat í íþróttahúsinu við Hringbraut og þar er einnig fyrirhugað að fram fari frístundastarf fyrir Holtaskóla,“ sagði Helgi. Frístundastarf yngstu barnanna í Myllubakkaskóla fer fram í kennslustofunum.

Stofurnar í skólabúðunum eru fjórtán, þar af eru tólf kennslustofur en hinar tvær hýsa ganga, anddyri og snyrtingar segir Helgi, „… og ekki veitir af. Sumum fannst kannski svolítið mikið í lagt þegar þetta var ákveðið en við hefðum alveg getað fjárfest í fleiri stofum og nýtt þær. Líka vegna þess að í þessum aðgerðum öllum náum við ekki að öllu leyti að halda úti hefðbundnu skólastarfi, til að mynda er varðar fyrirkomulag stoðþjónustu og nám í verk- og listgreinum. Við erum hins vegar að ná að leysa þetta eins vel og kostur er og kennarar eru náttúrlega alveg ótrúlegir við að finna leiðir og lausnir – og foreldrasamfélagið er með okkur, ég dáist að því.“

Hvernig er það svo með samgöngur, eru foreldrar að skutla börnunum eða verða einhverskonar skólabílar notaðir?

„Við höfum reynt að nýta almenningssamgöngur eins og hægt er en reynslan hefur sýnt að í sumum tilfellum er nauðsynlegt að vera með sérstakan akstur. Svo erum við með frístundarútu sem sækir börn af frístundaheimilunum og keyrir þau á íþróttaæfingar – það er heilmikið púsl líka. Það var mikil framför fyrir foreldra þegar það var sett á en það er heilmikið að púsla því öllu saman og fer í gang núna í haust þegar tímar íþróttaæfinga breytast.“

Lausar stofur hafa verið í notkun við Myllubakkaskóla undanfarin ár og reynst vel.

Á Reykjanesbær þessar einingar eða eru þær leigðar?

„Já, við höfum að mestu leyti keypt þessar lausu einingar sem eru fyrir utan ýmsa skóla hjá okkur og er orðið gífurlegt magn af stofum. Við erum stöðugt að endurmeta þörfina og hvort við komum til með að sitja uppi með þær en það eru flestir á því að þetta sé góð fjárfesting. Við munum auðveldlega losna við þetta, það er mikil ásókn í svona stofur og við höfum sjálf verið að leita til annarra sveitarfélaga með aðstoð en það eru margir í sömu sporum og við.“

Tölvuteiknuð mynd af ásýnd Myllubakkaskóla eins og hann kemur til með að líta út eftir endurbætur.

Nútímalegri og betri byggingar
Skólabúðirnar sem hafa verið að rísa á malarvellinum við Hringbraut eru byggðar úr færanlegum einingum og því er sá möguleiki fyrir hendi að færa þær annað þegar þær hafa þjónað sínum tilgangi en að sögn Helga hefur það sýnt sig að þessar einingar sem Reykjanesbær hefur verið að fjárfesta í eru varanlegt húsnæði. Leikskólinn Skógarás á Ásbrú var t.d. byggður við gamalt samkomuhús sem herinn skildi eftir með svona einingum og hefur reynst ákaflega vel en sá skóli er ekkert hugsaður til bráðabirgða að sögn Helga.

Eitthvað hlýtur þetta að hafa kostað sveitarfélagið, veistu hve há sú upphæð er orðin?

„Ég get sagt þér að í grunninn eru þessar skólabúðir að kosta fimm hundruð milljónir, þessar fjórtán stofur sem við erum að setja upp þar. Viðgerðirnar á húsnæðum skólanna hlaupa hins vegar á milljörðum en við erum auðvitað ekki að gera þetta í einu vetfangi heldur er verkið áfangaskipt, í þremur til fjórum áföngum.

Við erum í raun og veru að byggja nýja skóla og við erum að nýta tækifærið til ýmissa endurbóta, þetta eru ekki eingöngu viðgerðir heldur notum við tækifærið til að færa þessa skóla í nútímalegt horf, stækka og laga aðgengismál.“

Helgi tekur dæmi um að þörf hafi verið á að bæta aðgengismál, í Holtaskóla vantar lyftu og í sumum af þessum eldri skólum hefur til að mynda ekki verið loftræsting. Myllubakkaskóli kemur til með að stækka en til stendur að þétta byggðina Keflavíkurmegin með því að byggja þúsund nýjar íbúðir á Vatnsnesi og við Hringbraut – og er gert ráð fyrir þeirri fjölgun í Myllubakkaskóla.

„Í Myllubakkaskóla hefur verið rifin sú álma sem var verst farin og það er verið að gera ráð fyrir nýju íþróttahúsi, gamla íþróttahúsið verður rifið og byggt nýtt sem verður svipað að stærð og gerð og íþróttahúsin við Heiðarskóla og Akurskóla.

Svo kemur ný bygging í framhaldi af A-álmunni, elstu byggingunni, í átt að Hringbrautinni. Við erum farin að kalla þá byggingu Tígulinn en hún kemur tígullaga út á skólalóðina og þar erum við að bæta aðstöðu fyrir nemendur og starfsfólk.

Þar verðum við m.a. með sal, bókasafn og aðstöðu fyrir tónlistarkennslu sem við leggjum mikið upp úr að sé tengd inn í alla grunnskólana okkar en höfum því miður þurft að þjarma að þeirri starfsemi vegna mikillar fjölgunar og þessara húsnæðismála.

Þannig að við erum að nota tækifærið til að færa þessar stofnanir í nútímalegra horf og gera betri byggingar – það er verið að gera miklu meira heldur en að gera við vegna myglu,“ segir hann.

Áskoranirnar liggja víðar
Í samtali okkar bendir Helgi á að einnig séu miklar áskoranir í öðrum skólum. „Mygla er líka að stríða okkur í Njarðvíkurskóla en það er ekki eins víðtækt og í Holtaskóla og Myllubakkaskóla og viðráðanlegra, sem betur fer. Við náum að halda nemendum Njarðvíkurskóla að mestu innan veggja skólans en fáum einnig afnot af aðstöðu Ungmennafélags Njarðvíkur á efri hæð Ljónagryfjunnar.

Þá hefur nemendum fjölgað mikið í Háaleitisskóla og eru þeir komnir yfir fjögur hundruð. Má því segja að hann sé hreinlega sprunginn húsnæðislega séð og erum við að reyna að finna tímabundnar lausnir til að mæta því. Við vitum líka að Háaleitisskóli er ekki hugsaður til lengri tíma á þessum stað.“

Í húsnæði gamla Officeraklúbbsins er líka verið að setja upp skólaúrræði fyrir börn í leit að alþjóðlegri vernd, þar verða að staðaldri um hundrað börn. Húsið gengur nú undir nafninu Klúbburinn og á að þjóna margvíslegum tilgangi til virkni segir Helgi: „Klúbburinn á að þjóna fólki á öllum aldri, frá ungum börnum til fullorðna fólksins. Þar verður sömuleiðis skólaúrræði fyrir börn í fyrsta til tíunda bekk sem eru búsett á Ásbrú á vegum Vinnumálastofnunar. Það eru um hundrað börn sem bíða eftir að sú framkvæmd klárist. Háaleitisskóli mun hafa umsjón með því starfi.“

Þetta eru börn sem eru á flótta og vill svo til að hefur verið fundinn tímabundinn samastaður í sveitarfélaginu. Helgi segir að gott samstarf hafi verið í gangi frá vormánuðum milli Reykjanesbæjar annars vegar og hins vegar Vinnumálastofnunar og ráðuneytanna [barna- og menntamálaráðuneytis og atvinnu- og félagsmálaráðuneytis].

„Þau koma í raun og veru upp þessu úrræði, sjá um framkvæmdir og kosta reksturinn sem við önnumst. Þetta eru börn sem eru að bíða úrlausna á sínum málum og því geta nemendur verið í skemmri eða lengri tíma á skólaárinu. Þarna verður hreyfing á nemendum en það er búist við að þessi tala haldist.“

Þótt vel hafi gengið að reisa skólabúðirnar er ljóst að einhverjar tafir verða á að skólastarf geti hafist með þeim hætti sem fyrirhugað var.

Rask í upphafi skólaárs
Að lokum sagði Helgi að samkvæmt nýjustu fregnum eigi skólastarf að geta hafist í skólabúðunum á malarvellinum eftir þrjár til fimm vikur. Seinkunin hefur áhrif á skólasetningu í Myllubakkaskóla sem verður 28. ágúst í stað þess 23.

Að sögn Helga verða þessar fyrstu vikur með öðru lagi en hér á undan hefur verið lýst og að einhverju leyti skertar á meðan beðið er eftir að framkvæmdum ljúki á malarvellinum en hann segist viss um að nú sem áður leggist allir á árarnar við að láta þetta allt saman ganga sem best, börnunum okkar öllum til heilla.

„Þetta er alveg að bjarga okkur í þessari neyð sem við erum í, snjallræði hjá umhverfissviðinu og eignaumsýslunni að koma með þessa lausn,“ segir Helgi Arnarson, sviðsstjóri menntasviðs Reykjanesbæjar.

Heimild: Vf.is