Hluti hins svokallaða Reits 13, sem félagið Fjallasól í eigu Mata-systkina keypti, var í eigu björgunarsveita. Kópavogsbær er hafði milligöngu um kaup á lóðinni áður en hún var afhent verktökum.
Fjallað hefur verið um sölu bæjarins sem minnihluti bæjarstjórnar hefur fordæmt, meðal annars vegna þess að lóðin var ekki auglýst fyrir úthlutun í tvær vikur, líkt og reglur kveða á um.
Í frétt RÚV um málið kemur fram að Kópavogsbær hafi haft milligöngu um kaup á húsi Hjálparsveita skáta og afhent verktökum í framhaldinu. Segir Sigurbjörg Erla Egilsdóttir bæjarfulltrúi Pírata að kostnaður bæjarins við þann gjörning var hafi verið um 796 milljónir. Bærinn hafi selt svo verktökunum lóðina fyrir 500 milljónir.

VÍSIR/VILHELM
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri var spurð hvers vegna bærinn hafi haft milligöngu um viðskiptin.
„Aftur þarf að horfa á heildarskipulag svæðisins, þarna er gert ráð fyrir að borgarlínan gangi í gegn og lá alltaf fyrir að það yrði að skerða lóðarmörk og þess vegna er auðvitað einhver afsláttur þarna,“ er haft eftir Ásdísi í frétt RÚV.
Fyrr í gærkvöldi sagði Ásdís í svari við fyrirspurn Vísis að samningsstaða bæjarins hefði orðið veikari með auglýsingu lóðarinnar. Meginreglan væri sú að lóðir væru auglýstar en það hafi verið ógerlegt í þessu tilviki.
Heimild: Visir.is