
Til stendur að reisa tvær sumarbústaðabyggðir innan bæjarmarka Mosfellsbæjar við Selvatn samkvæmt nýju deiliskipulagi sem kynnt var í vor.
Búið er að senda inn athugasemdir og heldur nú skipulagsfulltrúi bæjarins áfram með málið.
Báðar frístundabyggðirnar yrðu á Miðdalsheiði við Selvatn. Einu landinu yrði skipt upp í 10 lóðir með möguleika á 10 sumarbústöðum með heimild fyrir 130 fermetra bústað á hverri lóð.

Hin byggðin, sem er áætluð á svipaðri staðsetningu, yrði svo byggð á landi sem væri skipt upp í fimm lóðir.
Fjórar þeirra myndu bera heimild fyrir 130 fermetra bústað en ein lóðin væri með heimild fyrir allt að 200 fermetra bústað.

Verða 16 talsins
Báðar byggðir hafa fengið athugasemdir frá hagsmunaaðilum og er nú málið enn í vinnslu.
Á fundi skipulagsnefndar Mosfellsbæjar var svo samþykkt deiliskipulagstillaga um einn sumarbústað á annarri lóð á Miðdalsheiði við Selvatn sem hefur heimild til að verða allt að 200 fermetra bygging. Því gætu sumarbústaðirnir orðið allt að 16 talsins á þessu svæði.
Heimild: Mbl.is