Home Fréttir Í fréttum Gera athugasemdir við forgangsröðun jarðganga

Gera athugasemdir við forgangsröðun jarðganga

63
0
Mynd: RÚV – Jóhannes Jónsson

Vesturbyggð gerir alvarlegar athugasemdir við forgangsröðun jarðgangakosta í samgönguáætlun. Bæjarstjóri segir sunnanverða Vestfirði hafa setið á hakanum í uppbyggingu samgönguinnviða.

<>

Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri í Vesturbyggð, segir mikla atvinnuuppbyggingu og fólksfjölgun í sveitarfélaginu kalla á bætta samgönguinnviði. Bæjarstjórn gerir alvarlegar athugasemdir við forgangsröðun jarðgangakosta í samgönguáætlun.

„Samgönguinnviðirnir hafa setið á hakanum á Sunnanverðum Vestfjörðum í mörg ár. Við bjuggumst við að það yrði spítt aðeins betur í. Það er kannski helst tvennt sem að við erum að gera athugasemdir við, það er forgangsröðun jarðgangna og hins vegar samgöngur til og frá þéttbýliskjörnum á Vestfjörðum,“ segir Þórdís.

Þegar kemur að forgangsröðun jarðgangakosta segir hún fagnaðarefni að jarðgöng undir Mikladal og Hálfdán séu komin á áætlun en forsendur að baki röð jarðgangakosta séu einfaldlega ekki nægilega vel unnar.

„Það er til dæmis ekki litið til forgangsröðunar Fjórðungssambands Vestfjarða um jarðgangakosti á Vestfjörðum. Það er ekki litið til umfjöllunar sem Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri setti fram um jarðgöng á áætlun.

Það er ekki litið til þess að Hálfdán er hæsti fjallvegur á Vestfjörðum sem að umferð er um allt árið um kring. Það er ekki litið til þess að vegurinn sem nú þegar er til staðar hefur verið dæmdur ónýtur. Það er ekki fjallað um slysatíðni og heldur ekki getið þessarar miklu umferðaraukningar sem hefur verið um þessa fjallvegi.“

Þá leggur Þórdís áherslu á að framkvæmdir við Vestfjarðarveg um Gufudalssveit tefjist ekki frekar eins og gert sé ráð fyrir á nýrri samgönguáætlun, eftir þeim framkvæmdum hafi þegar verið beðið í rúmlega tuttugu ár – meðal annars út af töfum vegna Teigskógar.

Heimild: Ruv.is