Sveitarstjórn Múlaþings þrýstir á að framkvæmdir við nýjan veg yfir Öxi verði færðar framar heldur en gert er ráð fyrir í drögum að samkomuáætlun fyrir árin 2024-38. Múlaþing vill einnig að rannsóknir fari í gang þannig hægt verði að halda áfram jarðgangagerð frá Seyðisfirði til Norðfjarðar um Mjóafjörð.
Þetta kemur fram í umsögn Múlaþings um drög að samgönguáætlun, en umsagnarfrestur rann út um síðustu mánaðamót. Þar er lýst vonbrigðum með að ekki sé áformað að ljúka framkvæmdum við Axarveg fyrr en 2033, þótt sá fyrirvari sé settur að hægt sé að fara fyrr í verkið sé það fjármagnað með veggjaldi.
Múlaþing hvetur til þess að framkvæmdirnar fari af stað strax á næsta ári hvernig sem er þannig að vegurinn verði tilbúinn 2028. Minnt er á að upphaflega hafi framkvæmdir verið fyrirhugaðar árið 2008 en frestast vegna fjármálahrunsins. Óásættanlegt sé með öllu að veginum sé frestað eina ferðina enn, sérstaklega í ljósi þess að vegkaflinn sé sá þar sem flest slys verði miðað við umferð í dreifbýli.
Múlaþing vill einnig að athugað verði að færa endurbætur inn að Klausturseli á Jökuldal og fyrir neðan bæinn Strönd á Völlum framar en er í áætluninni. Þá þurfi að huga að nýrri Lagarfljótsbrú. Múlaþing vill gera veg frá Kárahnjúkum að Brú á Jökuldal sem verði fær öllum bílum.
Í umsögninni er lýst yfir stuðningi við framkvæmdir í nágrannasveitarfélögum, að vegirnir innst í Fljótsdal verði klæddir og snjóflóðavörnum í Grænafelli ofan Reyðarfjarðar verði flýtt.
Því er fagnað að Fjarðarheiðargöng séu næstu jarðgöng og þrýst á að framkvæmdir við þau hefjist strax á næsta ári. Hvatt er til þess að haldið verði áfram gangagerð til Norðfjarðar um Mjóafjörð til að ljúka hringtengingu Mið-Austurlands eins og er í núgildandi samgönguáætlun. Til þess verði ráðist í rannsóknir og hönnun þeirra. „Það er gífurlega mikilvægt fyrir atvinnu-, samfélags- og öryggismál á Austurlandi öllu að sú hringtenging sem þá verður að veruleika náist innan ásættanlegra tímamarka,“ segir um þau göng.
Hlustað á óskir um hafnaframkvæmdir
Múlaþing fagnar tilkomu varaflugvallargjalds sem ætlað er að styrkja uppbyggingu annarra alþjóðaflugvalla en Keflavíkur. Sveitarfélagið vill flýta vinnu þannig að byrjað verði 2024 en ekki 2025 þegar 50 milljónir eru áætlaðar í verkið. Þorri framkvæmdanna nú í drögunum 2029-33 en Múlaþing vill fá sumt af því fé fært fram til 2028.
Múlaþing fagnar því að hlustað hafi verið á áherslur þess í hafnamálum og framkvæmdir séu framundan á Borgarfirði og Seyðisfirði. Þess er getið að skipulagsvinna sé hafin við uppbyggingu Djúpavogshafnar sem vonandi rúmist innan langtímasamgönguáætlunar. Þá þurfi að gera ráð fyrir fjárstuðningi við orkuskipti í höfnum.
Varðandi vetrarþjónustu hvetur Múlaþing til þess að vegir milli þéttbýliskjarna verði mokaðir alla daga vikunnar og Axarvegur allt árið.
Heimild: Austurfrett.is