Home Fréttir Í fréttum Náðu aftur ekki að rann­saka á­hrif hrauns á inn­viði

Náðu aftur ekki að rann­saka á­hrif hrauns á inn­viði

47
0
Ármann segir að næst verði að stökkva fyrr til svo hægt sé að klára þetta stig rannsóknarinnar. VÍSIR/ARNAR

Hraun rann ekki yfir tilraunasvæði nærri Litla-Hrúti, þar sem rannsaka átti hvaða áhrif hraunið hefði á innviði, áður en hlé varð á eldgosinu. Rannsóknarprófessor segi greinilegt að bregðast þurfi fyrr við þegar næsta eldgos hefst til þess að hægt sé að ljúka þessu stigi rannsóknarinnar.

<>

Fyrir viku síðan var greint frá því í kvöldfréttum á Stöð 2 að vísindamenn við Háskóla Íslands biðu þess í ofvæni að hraun rynni yfir tilraunasvæði nærri Litla-Hrút en þar átti að kanna hvaða áhrif hraunið hefur á mikilvæga innviði sem liggja bæði ofan í jörðu og eru ofan hennar.

Á laugardag lýsti Veðurstofa Íslands því yfir að hlé væri komið á eldgosið en enginn órói hefur mælst þar síðan um þrjú síðdegis þann dag. Óvíst er hvort gosinu sé lokið eða hvort aðeins sé komið á það hlé.

„Þetta náttúrulega gengur ekki. Tilraunin var sett upp en við fengum ekki hraun yfir. Þá bíðum við bara eftir næsta gosi,“ segir Ármann Höskuldsson, rannsóknarprófessor í eldfjallafræði við Háskóla Íslands.

Rannsóknirnar miðast aðallega að því að mæla hita og hvernig og hvenær hann hefur áhrif á lagnir og kapla sem bæði liggja ofan í jörðu og eru ofan hennar. Sömu tilraunir átti að gera árið 2021 en leyfi fékkst of seint.

„Við verðum bara að vera sneggri til næst,“ segir Ármann.

„Ákvörðun var tekin í seinna fallinu. Það verður bara að taka þessa ákvörðun fyrr næst þannig að við getum komið græjunum fyrir þar sem hraunið rennur örugglega yfir þær.“

Þó að þessi tilraun hafi ekki tekist að þessu sinni sé nóg af gögnum að vinna úr að næsta gosi.

„Um breytileika á eðliseiginleikum hraunsins frá upphafi við gígasvæði og fram að jöðrum. Það nýtum við líka í þessi hraunrennslimódel. Þetta hefst eitt skref í einu og vonandi verðum við komin með nokkuð góð módel þegar þetta fer að færast nær okkur,“ segir Ármann.

Heimild: Visir.is