Home Fréttir Í fréttum Fjarðabyggð vill að lokið verði við hönnun Suðurfjarðavegar 2024

Fjarðabyggð vill að lokið verði við hönnun Suðurfjarðavegar 2024

68
0
Mynd: Austurfrett.is

Fjarðabyggð leggur á að hönnun Suðurfjarðavegar verði lokið hið fyrsta þannig að hægt verði að bjóða framkvæmdir þar út. Sveitarfélagið gagnrýnir að búið sé að seinka Seyðisfjarðar- og Mjóafjarðargöngum í drögum að samgönguáætlun 2024-38.

<>

Þetta kemur fram í umsögn Fjarðabyggðar um drögin en frestur til að senda inn athugasemdir rann út á mánudag.

Aðaláherslan hjá Fjarðabyggð er á Suðurfjarðaveg. Í drögunum er fjármagn sett í nýja brú yfir Sléttuá árin 2027-8 og síðan haldið áfram næstu tíu árin í áföngum. Þetta telur Fjarðabyggð óásættanlegt þar sem hlutar vegarins séu metnir hættulegir samkvæmt alþjóðlegum stöðlum á sama tíma og umferð ferðafólks og þungaflutningar aukist.

Þá er rifjað upp að árið 1988 hafi verið lagt slitlag á stóran langa kafla leiðarinnar, á gamlan og ófullnægjandi veg. „Sú staða er með öllu óásættanleg og ekki til eftirbreytni,“ segir í umsögninni.

Fjarðabyggð vill að verkhönnun verði lokið á næsta ári þannig vegurinn verði tilbúinn til útboðs. Síðan verði færslu vegarins í botni Reyðarfjarðar flýtt þannig að ný brú yfir Sléttuá verði tilbúin fyrir árslok 2025 og þar með vígð á 20 ára afmæli Fáskrúðsfjarðarganga. Minnt er á að núverandi brú sé ein sú elsta á hringveginum og umferðarþyngsta einbreiða brúin á Austurlandi.

Að auki er hvatt til þess að farið verði í einbreiðar brýr í Fáskrúðsfirði og Stöðvarfirði í framhaldinu. Þar með verði komnar forsendur til að bæta veginn um Kambanesskriðurnar á fyrri hluta annars tímabils áætlunarinnar, um 2030 og svo frá Fáskrúðsfirði til Stöðvarfjarðar þannig öllu verði lokið innan tíu ára.

Óásættanlegt að slíta göngin í sundur

Fjarðabyggð mótmælir því harðlega að Mjóafjarðar- og Seyðisfjarðargöng séu ekki lengur næst í röðinni á eftir Fjarðarheiðargöngum eins og þau eru í núgildandi samgönguáætlun heldur þau sjöttu.

Í umsögninni segir óásættanlegt að slíta göngin svona í sundur. Því fylgi bæði kostnaðarlegt óhagræði auk þess sem fullur ávinningur náist ekki af Fjarðarheiðargöngum. Sveitarfélagið hvetur því til að fjármagn verði tryggt til rannsókna og undirbúnings Seyðsfjarðar- og Mjóafjarðarganga strax á næsta ári.

Minnt er á að meðan ekki séu göng til Mjóafjarðar þurfi að tryggja þangað ferjusiglingar og styrkja núverandi veg þar sem vaxandi fjöldi ferðafólks heimsæki fjörðinn. Þá er hvatt til þess að gamla veginum yfir Oddsskarð verði viðhaldið þannig önnur leið sé til Norðfjarðar ef Norðfjarðargöng lokast.

Almennt of litlu varið til samgöngumála

Fjarðabyggð lýsir vonbrigðum með að ekki sé meira fjármagn sett í vetrarþjónustu fyrir utan að þörf sé að ráðast í snjóflóðavarnir í Grænafelli á fyrsta tímabili. Lokanir vegna snjóflóða þar flæktu erfiða stöðu sem var nógu erfið fyrir í snjóflóðahrinunni á Austurlandi í lok mars.

Um aðra samgöngukosti leggur Fjarðabyggð áherslu á að Norðfjarðarvöllur verði áfram efldur fyrir sjúkra- og neyðarflug. Umferð þar hefur tvöfaldast síðan bundið slitlag var lagt á hann. Uppbygging fyrir innanlandsflug í bæði Reykjavík og Egilsstöðum skiptir máli og Loftbrúin. Þá þurfi áfram að byggja upp Egilsstaði sem varaflugvöll, bæði fyrir ferðamennsku en líka mögulegan útflutning ferskfara.

Almennt telur Fjarðabyggð að miðað við fyrirliggjandi fjármálaáætlun sé of litlu varið til samgöngumála. Dregið er fram að 0,94% af heildarútgjöldum ríkisins séu fari í nýframkvæmdir meðan 5,2% hafi verið varið til vegakerfisins árið 2008. Þess vegna sé í raun um að ræða niðurskurð sem gangi gegn markmiðum samgönguáætlunar. Slíkt sé alvarlegt þar sem samgöngurnar séu lífæðir samfélaga eins og í Fjarðabyggð.

Að endingu er hvatt til þess að vinnu við stefnu um framtíð gjaldtöku af umferð verði hraðað og haft í huga að staðbundnar álögur geti reynst mjög íþyngjandi sé ekki rétt að þeim staðið.

Heimild: Austurfrett.is