Home Fréttir Í fréttum Fimmtán milljarðar króna í stækkun Búrfellsvirkjunar

Fimmtán milljarðar króna í stækkun Búrfellsvirkjunar

130
0

Landsvirkjun er að hefja framkvæmdir við stækkun Búrfellsvirkjunar og hefur Skeiða- og Gnúpverjahreppur samþykkt framkvæmdaleyfi virkjunarinnar.

<>

„Það er mjög ánægjulegt að mínu mati að framkvæmdir við Búrfell 2 skuli vera í þann veginn að hefjast. Það er búið að liggja fyrir um nokkurt skeið að farið verði í þetta verkefni. Raunverulega var það fyrir 35 árum eða svo sem fyrstu tilburðir til þessara framkvæmda hófust. En það var svo ákveðið að setja aðrar virkjanir framar í röðina,“ segir Kristófer Tómasson, sveitarstjóri Skeiða og Gnúpverjahrepps.

„Aðstæður er í raun afar hagstæðar, lónið er til staðar og rask sem fylgir virkjuninni verður tiltölulega lítið. Kostnaður er mér sagt að verði 13-15 milljarðar. Ef við setjum það í samhengi við Búðarháls þar sem kostnaður var um 28 milljarðar og framleiðslugeta 90 Mw á móti 100 MW í Búrfelli 2,“ bætir Kristófer við.

Gert er ráð fyrir að framkvæmdir hefjist í vor og að þær standi yfir til miðs árs 2018. Ráðgert er að gangsetja stækkunina í aprílmánuði 2018. Um 150 manns munu fá vinnu við byggingu virkjunarinnar.

Fasteignagjöldin til sveitarfélagsins
Kristófer segir að íbúar sveitarfélagsins verði örugglega varir við framkvæmdirnar þegar þær fara af stað.

„Já, þetta mun þýða talsverða umferð um sveitarfélagið meðan á framkvæmdum stendur og við reiknum með að heimamönnum, ekki síður en öðru fólki, muni standa til boða störf við framkvæmdirnar. Framtíðarstörfum við Búrfell mun þó ekki fjölga að neinu ráði. Varla nema tvö til þrjú ársverk. Sveitarfélagið mun fá fasteignagjöld af stöðvarhúsi virkjunarinnar, vissulega munar um það,“ segir hann.

En er almenn sátt um stækkunina í sveitarfélaginu? „Já, ég met það svo að full sátt sé um framkvæmdina meðal íbúa sveitarfélagsins. Ég hef ekki heyrt nokkurn einasta íbúa lýsa vanþóknun á að virkjunin verði byggð. En auðvitað get ég ekki útilokað að leynst geti fólk sem ekki er sátt með framkvæmdina.“

Heimild: Sunnlenska.is