Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir framundan í Laugaskarði í Hveragerði

Framkvæmdir framundan í Laugaskarði í Hveragerði

264
0

Tillögur um uppbyggingu Sundlaugarinnar í Laugaskarði taka tillit til sérstöðu í landslagi og aðstæðum og fela þær einnig í sér mikla virðingu fyrir húsinu sem flestir eru sammála um að beri íslenskum arkitektúr fagurt vitni.

<>

Unnið hefur verið að metnaðarfullum breytingum á Sundlauginni Laugaskarði frá árinu 2014 en þá voru þær fyrst kynntar fyrir bæjarstjórn. Tillögurnar taka tillit til sérstöðu í landslagi og aðstæðum og fela þær einnig í sér mikla virðingu fyrir húsinu sem flestir eru sammála um að beri íslenskum arkitektúr fagurt vitni.

Margrét Leifsdóttir, arkitekt og heilsumarkþjálfi og barnabarn Gísla Halldórssonar sem teiknaði sundlaugarhúsið á sínum tíma hefur unnið að tillögunum ásamt arkitekum frá Arkibúllunni teiknistofu þeim Hrefnu Björgu Þorsteinsdóttur og Hólmfríði Jónsdóttur.

Tillögurnar byggja á þeirri sýn að Hveragerði er heilsubær en mikil vakning hefur orðið meðal íbúa um heilbrigða lifnaðarhætti og líkamsrækt. Fólk á öllum aldri stundar útivist og hreyfingu og er fjölbreytni þeirrar þjálfunar sem í boði er mikil. Sundlaugin í Laugaskarði er miðdepill þessarar starfsemi og er í tillögunum gert ráð fyrir að þessi sérstaða verði skerpt með uppbyggingu sem miði að því að auka vægi heilsutengdrar starfsemi þar sem tekið verði mið af meginstefinu “Heilsa – hreyfing – hamingja”.

Í tillögunum er gert ráð fyrir breyttri aðkomu að sundlaugarhúsinu og stærri bílastæðum. Móttakan verður endurnýjuð með áherslu á sölu heilsutengdra veitinga. Gert er ráð fyrir notkun á svölum sundlaugarhúss fyrir gesti, byggingu glæsilegra útiklefa, breytingu á innra skipulagi búningsklefa, nýjum heitum pottum, köldum potti og víxlböðum. Möguleiki er á annarri heilsutengdri starfsemi og má sem dæmi um slíkt nefna t.d. leir- eða ilmkjarnaböð og infrarauðan klefa.

Fyrir ungu kynslóðina verður vatnið notað með fjölbreyttum hætti í bunum, fossum og flúðum þannig að óhætt er að segja að með tillögunum er tekið mið af þörfum allra.

Við gerð tillagnanna hefur sérstaklega verið tekið tillit til þess að aðgengi fyrir alla verði tryggt.

Gert er ráð fyrir að hægt verði að áfangaskipta framkvæmdum þannig að framkvæmdirnar verði fjárhagslega viðráðanlegar fyrir bæjarfélagið.

Árið 2016 er gert ráð fyrir að endurbætur hefjist á efri hæð hússins, afgreiðslu, starfsmannaaðstöðu, breytingu á líkamsrækt og uppsetningu lyftu og um leið verða allar lagnir endurnýjaðar og aðgengi opnað að svölum fyrir almenning.

Það er von bæjarstjórnar að skynsamleg og metnaðarfull uppbygging heilsulindar í Laugaskarði verði að veruleika og að þannig getum við markað sundlauginni sérstöðu sem eftir yrði tekið á landsvísu.

Aldís Hafsteinsdóttir
Bæjarstjóri.

Heimild: Hveragerdi.is