Framkvæmdir við stækkun bílastæðis í Landmannalaugum hefjast á næstu vikum. Oddviti Rangárþings ytra segir að ekki sé ástæða til að endurskoða staðsetningu fyrirhugaðra framkvæmda.
Stefnt er á að framkvæmdir hefjist í Landmannalaugum á næstu vikum, að sögn oddvita Rangárþings ytra. Skiptar skoðanir eru um fyrirhugaða uppbyggingu á svæðinu, sem gerir meðal annars ráð fyrir nýju þjónustuhúsi með verslun og veitingasal og stærra bílastæði.
Fjallað var um framkvæmdirnar í sjónvarpsfréttum RÚV í gær. Mótttökuhús með veitingasal, snyrtingu, verslun og fleira, auk sex gistiskála fyrir samtals 120 manns og manngerð laug ásamt þjónustuhúsi er meðal þess sem verður reist á nú óröskuðu svæði í Landmannalaugum, verði áform Rangárþings ytra að veruleika.
Oddviti sveitarfélagsins, Eggert Valur Guðmundsson, segir í pistli á heimasíðu Rangárþings ytra, að deiliskipulag í Landmannalaugum hafi nú formlega tekið gildi og uppbygging geti hafist. Í fyrsta áfanga framkvæmdanna er veruleg stækkun bílastæðis, göngustígar, og bygging þjónustuhúss.
Eggert segir stefnt á að hefja framkvæmdir við stækkun bílastæðis ásamt rofvörnum á næstu vikum. „Í fyrsta áfanga er þjónustuhús, en við erum ekki að fara í það núna, þetta á eingöngu við um bílastæðin og stækkun á þeim,“ segir Eggert.
Ólíklegt að viðhorfskönnun verði gerð
Í áliti Skipulagsstofnunar, sem birt var fyrr í mánuðinum, segir að áður en komi til leyfisveitinga sé ástæða til að fram fari viðhorfskönnun meðal ferðamanna og ferðaþjónustuaðila.
Eggert segir ólíklegt að slík könnun verði gerð. „Ég hef ákveðnar efasemdir um það hvernig við eigum að standa að því,“ segir hann.
Hann segist ekki líta svo á að Skipulagsstofnun setji það sem skilyrði. „Nei, ég lít ekki svo á. Þetta eru fyrst og fremst tilmæli, ég les það út úr þessu,“ segir Eggert. „Ég lít svo á að deiliskipulagið hafi tekið formlega gildi.“
Ætla ekki að endurskoða skipulagið
Skipulagsstofnun telur réttara að bæta aðstöðuna innan núverandi þjónustusvæðis, en að ráðast í framkvæmdir á óröskuðu svæði.
Hafið þið íhugað að fara eftir þeim tilmælum og endurskoða þetta skipulag? „Nei, þetta er margra ára ferli sem er að ljúka núna og búin að vera mikil samvinna og samráð í kringum þetta og við erum bara mjög ánægð með þetta skipulag,“ segir Eggert.
Heimild: Ruv.is