Íbúum fjölgar og fjölgar á Hvammstanga enda tvö ný hverfi í byggingu. Ástæðan er meðal annars sú að lóðir á staðnum eru ókeypis, það er engin biðlisti í leikskólann og þá er næga atvinnu að hafa á Hvammstanga.
Hvammstangi í Húnaþingi vestra er einn af þessum fallegum stöðum úti á landi, sem er alltaf gaman að heimsækja. Í dag eru íbúar þar en 600 og þeim fjölgar ört því það er verið að byggja upp tvö ný hverfi á staðnum.
„Hér rjúka lóðirnar út og hafa gert undanfarin ár. Það er nýbúið að taka tvo grunna og búið að úthluta lóð fyrir raðhúsi, bara allt í gangi,” segir Unnur Valborg Hilmarsdóttir sveitarstjóri Húnaþings vestra.
Neðar í bænum við sjávarsíðuna er annað hverfi í uppbyggingu og þar er búið að úthluta öllum lausum lóðum.
„Engu að síður þá vantar húsnæði og við þurfum að spýta í lófana þar og erum að vinna samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélagsins í þá átt. Lóðirnar eru ekki seldar því þær eru í eigu sveitarfélagsins og greidd lóðarleiga , sem er mjög hófleg. Þannig að það hjálpar til við húsbyggingar að þú þarft ekki eyða milljónum og jafnvel stundum tugum milljóna í lóðir,” segir Unnur Valborg.
En það er ekki nóg með að lóðirnar kosti ekkert á Hvammstanga því þar er heldur engin biðlisti með börn í leikskóla.
„Hér er bara rosalega gott að búa og íbúakannanir hafa sýnt það að fólk á Hvammstanga er einna ánægðast með sveitarfélagið sitt á landinu öllu. Hér er öflugt menningarlíf, hér er hægt að fá atvinnu og bara gott fólk, sem býr hérna,” segir kampakátur sveitarstjóri Húnaþings vestra.
Heimild: Visir.is