Home Fréttir Í fréttum „Þetta verður al­gjör um­bylting fyrir bæinn“

„Þetta verður al­gjör um­bylting fyrir bæinn“

95
0
Viðbyggingin kostar um sex milljarða króna.

Stórum áfanga nýrrar viðbyggingar við verslunarmiðstöðina Fjörðinn í Hafnarfirði lauk í dag. Um sex milljarða króna verkefni er að ræða og eru áætluð verklok eftir tvö og hálft ár.

<>

Hafnfirðingar vinna nú að því að stækka verslunarkjarna sinn, Fjörðinn. Verður þar hægt að finna bókasafn, matvöruverslun og lúxusíbúðir. Í dag lauk fyrsta áfanga verkefnisins þegar klárað var að steypa botnplötu viðbyggingarinnar.

Viðbyggingin verður níu þúsund fermetrar en þegar verkinu er lokið verður hægt að finna þar bílakjallara, lúxusíbúðir, hótelíbúðir, almenningsgarð, matvöruverslun og fleira.

Í Firðinum verður meðal annars hægt að komast í matvörubúð og almenningsgarð.

Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, segir mikla eftirspurn hafa verið eftir þessari viðbyggingu.

„Það hefur verið mikil eftirspurn eftir góðu verslunar og þjónusturými hér í miðbænum undanfarin ár. Með þessari framkvæmd er verið að fullnægja þeirri þörf af mörgu leyti. Það er mikið tilhlökkunarefni, það verður mikil umbylting fyrir Hafnarfjarðarbæ og alla þegar þetta verður risið og komið í notkun,“ segir Rósa.

Rósa Guðbjartsdóttir er bæjarstjóri Hafnarfjarðar.
VÍSIR/ARNAR

Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðarins, tekur undir með Rósu.

„Við erum fyrst og fremst að reyna að byggja miðbæ Hafnarfjarðar. Það hefur til dæmis vantað matvöruverslun í miðbæinn. Bærinn sjálfur er að stækka ört og við ætlum að koma með alla þá þjónustu sem Hafnfirðingar og aðrir gestir vilja sækja,“ segir Guðmundur.

Guðmundur Bjarni Harðarson, framkvæmdastjóri Fjarðarins.
VÍSIR/ARNAR

Verklok eru áætluð eftir tvö og hálft ár og er gert ráð fyrir að viðbyggingin muni kosta sex milljarða króna.

„Við hlökkum mjög mikið til að þetta verði komið upp og komið í notkun. Þetta verður algjör umbylting fyrir bæinn,“ segir Rósa að lokum.

Heimild: Visir.is