Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar á Hólum vegna myglu

Framkvæmdir hafnar á Hólum vegna myglu

66
0
Mynd: RÚV – Sölvi Andrason

Mygla í Háskólanum á Hólum hefur mikil áhrif á starfsemi skólans. Fjögur ár eru síðan myglan uppgötvaðist en fyrst núna eru framkvæmdir að hefjast.

<>

Hluti húsnæðis Háskólans á Hólum er ónothæfur vegna myglu. Viðræður standa yfir um framtíð húsnæðisins.

Mygla uppgötvast árið 2019 og skrifstofur loka árið 2021
Saga Háskólans á Hólum nær allt aftur til tólftu aldar. Skólinn hefur starfað í núverandi mynd frá árinu 2007 í aldargömlu húsnæði, sem farið er að láta á sjá.

Árið 2019 uppgötvaðist að mygla væri á fjórðu hæð aðalbyggingar skólans. „Þetta var í raun orðið svo slæmt að í lok árs 2021 fengum við fyrirmæli frá Vinnueftirlitinu að það þyrfti að loka skrifstofunni og fólk mætti ekki vinna þar,“ segir Edda Matthíasdóttir, framkvæmdastjóri Háskólans á Hólum

Hún segir að þá þegar hafi starfsfólk verið farið að taka upp á því að vinna heima vegna slæmra aðstæðna.

Framkvæmdir lengi að hefjast
Og núna fjórum árum eftir að myglan uppgötvaðist, hefur loks verið hafist handa við að stúka af fjórðu hæðina og útbúa aðstöðu fyrir starfsmenn, sem hafa misst skrifstofur sínar.

Edda segir bagalegt hve langan tíma hafi tekið að koma framkvæmdum af stað. „Bæði kemur fjármagnið seint og svo hreyfist það hægt þegar það er komið af stað en við erum að vonast til að við séum að fara að sjá meiri hreyfingu á þessu núna.“

Samtal milli ráðherra og stjórnenda um framhaldið
Talið er að myglan sé komin á fleiri staði í skólanum og nú vinnur verkfræðistofan EFLA að mygluúttekt á öllu skólahúsnæðinu.

Háskólaráðherra átti fund með stjórnendum um næstu skref. „Þetta er auðvitað ekki stór skóli en hann er hér á mjög merku svæði og það þarf að meta það og skoða alla valkosti áður en ráðist er í mjög miklar og dýrar framkvæmdir,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra.

Edda segir ýmsar hugmyndir á lofti um framtíðarhúsnæði. Ein þeirra sé til dæmis nýbygging á Sauðárkróki, en hingað til hefur fiskeldisdeild skólans haldið úti hluta af starfsemi sinni þar. Þá sé samstarf við aðra háskóla líka fýsilegur kostur.

„Við höfum átt gott samtal við fleiri háskóla um samstarf og höfum alltaf sagt að við erum opin fyrir samstarfi – vissulega á okkar forsendum, við erum mjög upptekin að því að það auki gæði skólans að fara í slíkt samstarf,“ segir Edda.

Heimild: Ruv.is