Skipulagsfulltrúi Reykjavíkur hefur tekið jákvætt í ósk um breytingu á deiliskipulagi lóðarinnar Borgartúns 1. Núverandi byggingar víki og í staðinn verði byggt stórt hótel samkvæmt uppdrætti T.ark arkitekta.
Margir kannast við skrifstofubygginguna Borgartún 1 vegna sérstaks útlits hennar. Bogadregin ásýnd hússins nýtur verndunar götumyndar og skal útlit hótelsins taka mið af því. Húsið stendur gegnt þekktri byggingu í borginni, Rúgbrauðsgerðinni.
Það er félagið BE eignir ehf. sem sendi fyrirspurn um breytingu á Borgartúni 1 til Reykjavíkurborgar. Samkvæmt hlutafélagaskrá var félagið stofnað árið 2013 af Höfðatorgi ehf. Á heimasíðu Íþöku fasteignafélags er verkefnið kynnt svo: Hótelbygging á fjórum hæðum. Áætlaður fjöldi herbergja: 105-115. Áætluð stærð er um 5.600m². Verkefnið er í þróun og bíður eftir réttum leigutaka áður en bygging hefst.
Fram kemur í umsögn verkefnastjóra skipulagsfulltrúa að óskað sé eftir því að sameina lóðirnar Borgartún 1, Borgartún 3 og Guðrúnartún 4 og byggja á þeim eitt stórt hótel. Í dag eru nokkur fyrirtæki skráð í Borgartúni 1 og í bakhúsi er Samhjálp með kaffistofu.
Húsið að Borgartúni 1 telur í dag tvær hæðir á horninu og eina hæð austar, meðfram Borgartúni. Heimild er fyrir hótelbyggingu á lóðinni.
Nánar er fjallað um málið í fimmtudagsblaði Morgunblaðsins.
Heimild: Mbl.is