Home Fréttir Í fréttum Keyptu köttinn í sekknum út af gáleysi fasteignasala

Keyptu köttinn í sekknum út af gáleysi fasteignasala

192
0
Mynd: Dv.is

Úrskurðarnefnd vátryggingarmála tekst á við álitamál sem varða greiðslur úr hinum ýmsu vátryggingum. Nýlega voru birtir úrskurðir nefndarinnar í málum sem bárust henni á síðasta ári og má af þeim draga mikinn lærdóm.

<>

Þó nokkur mál komu fyrir nefndina þar sem kaupendur fasteigna freistuðu þess að fá meint tjón sitt bætt úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasala. Nefndin rakti í úrskurðum sínum, sem flestir féllu tryggingarfélaginu í vil, að í þessum málum þurfi að sýna fram á að fasteignasali hafi af ásetningi eða gáleysi bakað kaupendum tjón, en þó eru ríkar kröfur lagðar á kaupendur til að skoða fasteignir gaumgæfilega og að draga ekki of víðtækar ályktanir af almennu orðalagi í söluyfirliti.

Þó féllu tveir áhugaverðir úrskurðir kaupendum í vil en segja má að þar hafi verið keyptur kötturinn í sekknum sökum þess að fasteignasalinn vanrækti að gæta að upplýsingum í söluyfirliti.

Götóttar lagnir sagðar í lagi
Úrskurðarnefndin komst að þeirri niðurstöðu að kaupandi fasteignar ætti rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasala, vegna rangra upplýsinga sem komu fram í söluyfirliti. Málið varðaði fasteign sem var keypt í mars árið 2020. Í söluyfirliti sagði að húsið væri steinsteypt kætt að utan og virtist vera í mjög góðu ástandi og hafi það fengið gott viðhald í gegnum tíðina. Um ástand vatns-, raf- og frárennslislagna sagði að þessi atriði væru „í lagi“. Því keypti kaupandinn eignina.

Kaupandi fór svo í framkvæmdir eftir að hafa fengið afhent og reif upp gömul gólfefni. Við þetta hafi komið í ljós að mikill raki var á hæðinni sem og megn skólplykt. Eins hafi fundist silfurskottur og sýnileg svört mygla. Þá hafi kaupandi fengið stífluþjónustu til að mynda frárennslislagnir og þá kom í ljós að lagnir voru upprunalegar, götóttar, og hefðu að einhverju leyti fallið saman og stíflast.

Kaupandi taldi að hér væri um galla að ræða, en tapaði gallamáli sem hann höfðaði gegn seljendum. Leitaði þá kaupandi í starfsábyrgðartryggingu fasteignasalans þar sem hann hefði af gáleysi sett rangar upplýsingar í söluyfirlit fasteignarinnar þegar hann sagði lagnir í lagi, auk þess sem engra galla hafi verið getið í yfirlitinu.

Tryggingafélagið neitað með vísan til þess að fasteignasalinn gæti ekki að því gert að seljendur hafi veitt honum rangar upplýsingar um ástand eignarinnar. Eins hafi fasteignasalinn aðeins framkvæmt sjónskoðun á eigninni fyrir kaupin, en samkvæmt dómafordæmum þurfa fasteignasalar ekki að kanna ástand eigna nánar en það.

Úrskurðarnefndin sagði óumdeilt að yfirlýsingar fasteignasalans í söluyfirliti byggðu á sjónskoðun sem og samtali við seljendur. Hins vegar hafi fasteignasalinn ekki kallað eftir neinum haldbærum gögnum frá seljendum um ástand lagnanna, svo sem hvort þær hefðu verið endurnýjaðar eða hversu langt var síðan þær hefðu verið myndaðar.

Hefði fasteignasalinn átt að gera sér grein fyrir því að seljendur væru ekki fagmenn og gætu því ekki fullyrt neitt um ástand lagna. Eins hafi aldur eignarinnar, sem var byggð árið 1950, gefið fullt tilefni til þess að slíkra upplýsinga yrði aflað eða þá að fasteignasali kæmi hreint fram með að ástand væri óþekkt. Kaupandi hafi því orðið fyrir tjóni sem yrði rakið til gáleysis fasteignasala, og því fallist á bótaskyldu.

Sumarbústaður reyndist óleyfisframkvæmd
Úrskurðarnefnd féllst einnig á að kaupandi sumarbústaðar ætti rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasalans. Það mál varðaði sumarhús sem var keypt vorið 2020. Hafði bústaðurinn verið auglýstur sem mikið endurnýjaður og var sagt að hann hafi verið byggður árið 2008. Eftir kaupin hafi þó komið á daginn að um var að ræða nýbyggingu og ekki nóg með það heldur var þessi nýbygging án allra leyfa, án iðnmeistara og engar úttektir byggingarfulltrúa höfðu átt sér stað.

Þetta kom hvergi fram í söluyfirliti og ekki heldur í kauptilboði eða í kaupsamning. Kaupandi höfðaði því mál til að fá kaupunum rift og féllst héraðsdómur á það sem og skaðabótaskyldu seljenda. Kaupandi hafi þó setið eftir með ýmsan kostnað sem hann hafði þurft að leggja út, svo sem fasteignagjöld, brunatryggingu, mælagjald til Rarik, áætlun rafmagnsnotkun, uppgjör við lögmenn og kostnaður vegna láns sem var tekið vegna kaupanna. Ákvað kaupandi að gera kröfu um að fá þennan aukakostnað úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasalans.

Tryggingarfélagið hafnaði þó bótaskyldu og hélt því fram að kaupanda hafi sérstaklega verið bent á að ekki væri leyfi fyrir húsinu. Ekki hafi það getað farið á milli mála að það var ekki tilbúið. Í það hafi vantað vatn, rotþró og rafmagn svo dæmi séu tekin. Þetta hafi kaupanda verið kunnugt um, enda átti sonur kaupenda að vera meistari að húsinu.

Úrskurðarnefnd rakti að samkvæmt dómsmálinu hafi dómari talið ósannað að kaupanda hafi verið gerð grein fyrir ástandi eignarinnar. Eins hafi dómari talið ljóst að fasteignin væri ekki í samræmi við þær upplýsingar sem gefnar voru upp. Úrskurðarnefnd rakti að á fasteignasölum hvíli lagaskylda til að gæta þess að á söluyfirliti komi öll grundvallaratriði fram um eiginleika og ástand eignarinnar. Hefði fasteignasalinn í þessu máli átt að tryggja að það kæmi skýrt fram í yfirliti að eignin væri óleyfisframkvæmd og hvorki hafi verið aflað byggingarleyfis né samþykktra teikninga. Kaupandi ætti því rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingu.

Heimild: Dv.is