Fyrirhugað hótel Hreiðars Hermannsonar á Orustustöðum í Skaftárhreppi verður með ísböðum og heitum laugum og tugkílómetra stígakerfi fyrir viðamikla afþreyingu. Enn ríkir þó óvissa um hvort leyfi fáist til að leggja varanlegan veg að hótelinu.
Í fréttum Stöðvar 2 var fjallað um áform Hreiðars á Orustustöðum en þar vonast hann til þess að geta hafið tíu milljarða króna hótelframkvæmdir fyrir veturinn.
„Þetta er ekki venjulegt hótel. Það eru mjög stór herbergi og það er búið að hanna mikið af afþreyingu sem byggist á ísböðum og heitum laugum og allt þar á milli og þetta er allt keyrt á varmadælum,“ segir Hreiðar.
Kuldinn sem myndast í eins megavatta varmadælum nýtist þannig ísböðunum um leið og þær framleiða hita. Þar sem ekki finnst jarðhiti á svæðinu segir Hreiðar að með þessum hætti verði kyndingarkostnaður aðeins um fimmtungur af því sem annars hefði orðið.
Landrýmið á Brunasandi hyggst hann nýta til afþreyingar.
„25 kílómetrar hannaðir hérna af hjólastígum, göngustígum, hestaleiðum og síðan stígum þannig að maður kemst með fólkið suður í fjöru.“
Tilgangurinn er að fá hótelgesti til lengri dvalar.
„Almennur gistitími verði svona að meðaltali þrjár nætur, ekki minna. Þetta er „resort“. Þú getur verið hérna og haft þína afþreyingu í friði og ró,“ segir Hreiðar.
Sveitarstjóri Skaftárhrepps, Einar Kristján Jónsson, segir að ekki hafi staðið á hreppnum að veita tilskilin leyfi. En Hreiðar þarf einnig rekstrarleyfi frá sýslumanni.
„Þessar framkvæmdir eru náttúrlega háðar rekstrarleyfi og ef það er ekki vegsamband fyrir bjargir þá er nú hæpið að hann fái rekstrarleyfi frá opinberum aðilum,“ segir sveitarstjórinn.
Og þótt Hreiðar hafi nýlega haft betur í dómsmáli um notkun bráðabirgðavegar í deilu við eigendur nágrannajarðar þá þarf hann einnig að sækja til þeirra, sem og Vegagerðarinnar, um gerð varanlegs vegar. Algjör óvissa ríkir um hvernig það fer.
Hreiðar er þegar byrjaður með íbúðagistingu á jörðinni á grundvelli bráðabirgðaleyfis og það var einnig veitt í óþökk nágranna hans.
„Okkur er það gjörsamlega óskiljanlegt hvernig þessi maður fékk leyfi til framkvæmda og til rekstrar, starfsleyfi, að jörð sem hefur enga vegtengingu. En honum er veitt það leyfi,“ segir Þuríður Benediktsdóttir, eigandi Hraunbóls.
„Þetta er bráðabirgðaleyfi miðað við þau mannvirki sem eru þar núna. En ef hann ætlar að fara að koma með tvöhundruð herbergja hótel þá þarf hann sjálfsagt að sækja um það að nýju,“ segir Einar Kristján Jónsson, sveitarstjóri Skaftárhrepps.
Heimild: Visir.is