Home Fréttir Í fréttum Sakaði fasteignasalann um vítavert gáleysi – Húsið reyndist bæði eldra og friðað...

Sakaði fasteignasalann um vítavert gáleysi – Húsið reyndist bæði eldra og friðað og verðlaunaðar endurbætur voru án leyfa

154
0
Mynd/Tierra Mallorca hjá UnSplash

Úrskurðarnefnd í vátryggingarmálum hefur kveðið upp 404 úrskurði í málum sem bárust nefndinni á seinasta ári. Nefndin tekur fyrir mál vegna ágreinings um bótaskyldu. Málin eru gífurlega fjölbreytt og varða allskonar tryggingar.

<>

Sem dæmi má nefna að í fjölda mála var kannað hvort launþegi ætti rétt á að sækja bætur vegna frítímaslyss, hvort amma ætti rétt á bótum eftir að hafa slasast á baki við að halda á barnabarni sínu, hvort að bótakrafa látins einstaklings erfðist og svona mætti lengi áfram telja.

Í einu eftirtektarverðu máli taldi einstaklingur sig eiga heimtur á bótum úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasala, en fasteignakaupandi taldi fasteignasala hafa vanrækt þær skyldur sem á honum hvíla lögum samkvæmt.

Kaupandinn keypti eign sem hafði verið kynnt sem mikið endurnýjuð. Var sagt að eignin hefði fengið viðurkenningu fyrir vandaðar endurbætur á árinu 2016. Fljótlega eftir kaupin var eignin skoðuð þar sem kaupandi ætlaði að afla sér tilboða í fasteignatryggingu.

Við þá skoðun hafi komið í ljós að stigi sem liggur milli fyrstu hæðar og kjallara uppfyllti ekki kröfur um gerð og umbúnað. Þá fór kaupandi að grafast fyrir og komst að því að tilteknar framkvæmdir sem höfðu átt sér stað í eigninni höfðu aldrei verið tilkynntar til byggingarfulltrúa og þar með hvorki samþykktar né teknar út.

Þessar framkvæmdir fólust meðal annars í gerð stigaops, breytingu á innra skipulagi kjallara, hjólageymslu í bakgarði og niðurföll á lóð.

Þessar framkvæmdir hafi ekki verið með tilskilin leyfi og sat kaupandi uppi með þann kostnað sem fylgdi því að afla viðeigandi leyfa, eða til að koma fasteigninni í fyrra horf ef leyfi fengjust ekki.

Fasteignasali hafi ekki upplýst kaupanda um að leyfin væru ekki til staðar. Viðurkenningin sem endurbæturnar fengu hafði bara átt við endurbætur utanhúss, og ekki kom fram í söluyfirliti að geymsla í garði var byggð án leyfis. Þetta hefði fasteignasalinn átt að vita.

Eins hafi á söluyfirliti staðið að eignin væri byggð árið 1924, en kaupandinn hafi eftir kaupin séð viðurkenningarskjöld á vesturgafli hússins þar sem kom fram að byggingarár væri 1908 og húsið þar með aldursfriðað. Þetta hefði fasteignasalinn átt að vita og upplýsa um.

Tryggingarfélag fasteignasalans tók fram að skaðabótaábyrgð fasteignasala sé ekki hlutlæg heldur byggi á sakarreglunni, því þurfi að sanna sök. Kaupandi hefði átt að gera sér grein fyrir því við kaup að eitthvað væri athugavert við stigann.

Taldi félagið eins að kaupandinn hefði ekki sýnt fram á raunverulegt tjón, en hvorki væri búið að afla matsgerðar eða annarra sönnunargagna fyrir meintu tjóni.

Kaupandinn vísaði á móti til þess að á fasteignasölum hvílir rík sérfræðiábyrgð. Lögum samkvæmt eigi teikningar sem sýna fyrirkomulag innan húss að fylgja með söluyfirliti. Slíkar teikningar hafi kaupandinn ekki fengið og þar með gaf söluyfirlit ekki rétta mynd af eigninni.

Fasteignasalinn hefði, í ljósi sérfræðiþekkingar sinnar, átt að gera sér grein fyrir að framkvæmdir sem seljendur höfðu ráðist í væru sumar leyfisskyldar og út frá því að kanna hvort slík leyfi væru fyrir hendi. Fór kaupandi, auk viðurkenningar á bótaskyldu tryggingarfélagsins, fram á að fá endurgreidda þóknun, eða umsýslugjald, fasteignasölunnar þar sem fasteignasalinn hefi brugðist skyldum sínum.

Úrskurðarnefndin rakti að lögum samkvæmt eiga fasteignasalar að gæta þess vandlega að á söluyfirliti sé að finna öll grundvallaratriði um eiginleika og ástand eignar. Teikning hefði átt að fylgja og lóðaruppdráttur.

Fasteignasali eigi sjálfur að afa upplýsinga sem koma eiga fram í söluyfirliti, sækja þessar upplýsingar í opinberar skrár og skýrslur og svo kynna sér ástand, gerð og búnað eignar af eigin raun. Ef upplýsingar í söluyfirliti eru rangar þá standi í lögum að fasteignasalinn beri ábyrgð á því og eins að hann beri ábyrgð á því tjóni sem hann eða starfsmenn valda af ásetningi eða gáleysi.

Í þessu máli hefði fasteignasalinn með auðveldum hætti getað nálgast teikningar og annað um eignina. Fasteignasalinn hefði eins mátt átta sig á því að þar sem framkvæmdir hefðu átt sér stað þyrfti að kanna með leyfi.

Mikil áhersla hafi verið lögð á þessar endurbætur í söluyfirliti og þær settar fram sem sölupunktur. Fasteignasalinn hefði því gerst sekur um gáleysi við sölumeðferð og væri fyrirséð að kaupandi yrði fyrir tjóni. Það væri þó ekki á verksviði nefndarinnar að krefja fasteignasöluna um endurgreiðslu á umsýslugjaldi.

Kaupandi á því rétt á bótum úr starfsábyrgðartryggingu fasteignasalans, að því marki er varðar fjártjón sem hlýst af því að afla leyfa fyrir framkvæmdum sem höfuð átt sér stað fyrir kaupin.

Heimild: Dv.is