Þorsteinn Víglundsson, forstjóri Eignarhaldsfélagsins Hornsteins ehf., gagnrýnir íslenskt regluverk og segir Ísland eiga að vera markað sem þróast hratt en regluverkið, skrifræðið og hið opinbera yfirhöfuð standi í vegi fyrir því.
Hann segir lítinn sem engan vilja hjá stjórnvöldum til að einfalda regluverkið en gríðarleg samkeppnishindrun felist í því fyrir samfélagið í heild.
„Það finnst mér alltof lítil áhersla vera á af hálfu stjórnvalda. Það má segja í þessari stóru mynd, einmitt þegar horft er til eftirlitsiðnaðar, leyfisveitingarferlis og skipulagsvinnu. Þá er ég bæði að tala um ríkisvaldið og sveitarfélög,“ segir hann. Þetta kemur fram í ítarlegu viðtali við Þorstein í ViðskiptaMogganum sem kom út í dag.
Þurfum að forðast miðstýringu
„Ég held að við séum með alltof mikil opinber afskipti af því hvers konar íbúðarhúsnæði er byggt eða alltof mikil inngrip af hálfu hins opinbera hvað er verið að byggja hverju sinni.
Það er handstýring á íslenskum íbúðamarkaði í átt að leigu og við sjáum það að á síðustu þrjátíu árum hefur hlutfall leiguhúsnæðis, eða húsnæðis í eigu lögaðila, aukist um tíu prósent á sama tíma og húsnæði í eigu einstaklinga sem eiga eina íbúð hefur lækkað um sömu tíu prósent,“ segir Þorsteinn og bætir við að eftir hrun hafi verið opinber umræða gegn séreignarstefnu sem hann segir heimskulegt.
„Við þurfum að forðast of mikla miðstýringu á því hvers konar íbúðir eigi að byggja. Hið opinbera er ekki vel fallið til slíkra ákvarðana enda sitja ráðamenn ekki uppi með kostnaðinn af röngum ákvörðunum þar.
Það gera hins vegar byggingarverktakar sem eru að byggja stærstan hluta þessara íbúða og taka áhættuna af því hvað selst og hvað ekki,“ segir Þorsteinn loks.
Heimild: Mbl.is