Home Fréttir Í fréttum Styttist í landtengingu stærri skipa

Styttist í landtengingu stærri skipa

62
0
Skemmtiferðaskipin losa meira af brennisteinsdíoxíði en allur bílafloti landsins samkvæmt úttekt Transport & Environment. RÚV – RÚV - Freyr Arnarson

Tölur evrópskra umhverfisverndarsamtaka um mengun af völdum skemmtiferðaskipa endurspegla ekki losun í höfnum landsins segir hafnarstjóri. Eftir þrjú ár ætti að vera hægt að tengja öll skemmtiferðaskip sem leggjast að bryggju í Reykjavík við rafmagn.

<>

Í skýrslu evrópsku umhverfisverndarsamtakanna Transport and Environment er Ísland á meðal þeirra tíu ríkja sem verða fyrir mestri mengun frá skemmtiferðaskipum. Skipin í fyrra hafi skilið eftir 371 tonn af brennisteinsdíoxíði, meira en kom frá öllum bílaflota landsins. Þess utan er Reykjavík í 32. sæti yfir borgir þar sem skemmtiferðaskip menga mest.

280 skemmtiferðaskip leggja að bryggju í höfnum Faxaflóahafna þetta árið. Gunnar Tryggvason, hafnarstjóri, segir tölurnar vissulega háar en bendir á að þær taki til útblásturs á meðan skipin eru á siglingu, ekki í höfn. Mengunin sé því á hafi úti.

Engu að síður losa skipin mikið af mengandi efnum við bryggju. Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að auka vöktun og draga úr mengun. Nýverið voru mælar settir upp í Lauganesi og Kleppi sem fylgjast með loftgæðum í kringum Sundahöfn. Mælarnir hafa til þessa ekki sýnt teljandi mengun frá skipunum, einkum vegna þess að lítið hefur verið um stillur síðan mælarnir voru settir upp.

Í vor fengu Faxaflóahafnir lagaheimild til að refsa eða ívilna skipum, eftir því hversu mikið þau menga.

„Við sjáum hvaða skip eru best og hver eru verst og við náum að ívilna þeim sem standa sig vel og nota gott eldsneyti, eldsneyti með lítinn brennistein en refsa hinum sem gera það ekki.“

Upphæðin á mest mengandi skipin nemur allt að 75 prósentum af skipagjöldum og segir Gunnar að sú heimild sé nýtt til fullnustu.

Varanleg lausn felst hins vegar í að tengja skipin við rafmagn á meðan þau eru bundin við bryggju. Landtenging er komin fyrir fraktskip á Sundabakka og síðar í sumar verður komin landtenging fyrir smærri skemmtiferðaskip í Faxagarði. Allt að þrjú ár gætu liðið þar til hægt verður að tengja stóru skipin við rafmagn.

„Það er í raun og veru hin endanlega lausn á þessu vandamáli í sjálfu sér. Þetta eru tölur um og yfir tvo milljarða sem þetta kostar. Þetta er á fjárhagsáætlun en við höfum líka leitað eftir því að fá aðstoð við þetta frá opinberum sjóðum og sjáum til hvort að þeir séu tilbúnir til að gera þetta með okkur.“

Heimild: Ruv.is