Kerecis er að hefja framkvæmdir við nýtt 6000 fermetra hús á Sundatanga undir starfsemi félagsins. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, framkvæmdastjóri félagsins segir að gert sé ráð fyrir að jarðvinna verði næsta ár og að húsið verði tekið í notkun 2026. Nú eru um 70 starfsmenn á Ísafirði og hann segir fyrirsjáanlegt að þeim muni fjölga með vaxandi umsvifum félagsins.
Guðmundur segir að Kerecis hafi nú þegar tilskilin leyfi frá FDA, matæla- og lyfjaeftirlitsstofnunar Bandaríkjanna, fyrir sölu afurða Kerecis í Bandaríkjunum. Leyfið sé bundið úttekt á aðstöðu og framleiðsluaðferðum, meðal annars húsnæði og það sé ekki einfalt að færa framleiðsluna frá Ísafirði.
Slíkt myndi taka mörg ár enda þyrfti að fá samþykkti FDA fyrir annarri framleiðslustaðsetningu. Guðmundur segist ekki sjá fyrir sér að nýir eigendur Kerecis muni huga að breytingum á framleiðslustað , enda enginn hvati til þess, starfsemin gangi vel þar sem hún er og skili góðum hagnaði. Hráefnið í framleiðslunni er fiskiroð sem fengið er frá HG.
Í síðasta ársreikningi fyrirtækisins, sem er fyrir tímabilið 1. október 2021 til 30. september 2022 segir frá því að vöruþróunar starfsemi félagsins á árinu 2022 leiddi til tveggja nýrra FDA samþykkta. „Eitt fyrir útvortis sáralyf og eitt fyrir notkun vöru í munni við skurðaðgerðir. Umtalsverðar prófanir á dýrum voru gerðar árið 2022 í tengslum við
næstu kynslóðir efna fyrirtækisins sem styður fyrirhugaða innsendingu FDA árið 2023.“
Rekstrartekjur voru 12, milljarður króna og hagnaður 528 m.kr. Eignir voru metnar á 12,4 milljarða króna og eigið fé 12,2 milljarðar króna sem gerir 98% eiginfjárhlutfall.
Guðmundur Fertram Sigurjónsson verður áfram framkvæmdastjóri Kerecis, a.m.k. næstu tvö árin og aðrir stjórnendur verða einnig áfram.
Söluverð Kerecis er 1,3 milljarðar bandaríkjadala og það nær allt greitt út í hönd. Fyrirtækið var stofnað 2007 og hefur vöxtur þess og verðmætisaukning verið ævintýraleg.
Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins fjárfesti í Kerecis í ársbyrjun 2010 þegar þróunarstarf félagsins var að hefjast og fylgdi sjóðurinn fjárfestingunni eftir þar til að hann seldi sinn hlut 2014 sem var tæplega 26%. Kaupendur voru stofnendur félagsins og íslenskir fjárfestar. Meðal íslenskra fjárfesta sem hafa verið með frá upphafi eru HG í Hnífdal, Klofningur á Suðureyri og félag í eigu Gísla Jóns Hjaltasonar á Ísafirði.
FJÓRTÁN FÖLDUN Á 4 1/2 ÁRI
Í frétt um Kerecis í Morgunblaðinu í janúar 2019 er greint frá hlutafjáraukningu sem standi yfir í Kerecis og þá er verðmæti félagsins talið vera 9,5 milljarðar króna. Að teknu tilliti til breytinga á verðlagi frá þeim tíma jafngildir það 12,2 milljörðum króna á verðlagi í dag. Verðmæti félagsins hefur liðlega fjórtánfaldast á fjóru og hálfu ári.
Hálfu öðru ári síðar, í október 2020 er önnur frétt í Morgunblaðinu um verðmæti Kerecis og nú segir að verðmæti þess sé 15 – 30 milljarða króna virði og er þá miðað við að verðmæti félaga í tæknigeiranum sé 6 – 12 föld velta.
LÍFEYRISSJÓÐUR VESTMANNAEYJA HAGNAST VEL
Aðeins tveir lífeyrissjóðir höfðu fjárfest í Kerecis. Annar þeirra var Lífeyrissjóður verkfræðinga og hann seldi sín hlutabréf fyrir skömmu og fór því á mis við hagnaðurinn að sölunni nú. Hinn er Lífeyrissjóður Vestmannaeyja og segir Guðmundur að sjóðurinn hafi alla tíð staðið með fyrirtækinu og uppbyggingu þess. Hagnaður sjóðsins af sölunni nú til Coloplast er mikill.
MARGIR HAGNAST VEL
Margir hagnast vel á sölunni. Að sögn Guðmundur var um fjórðungur – þriðjungur hlutafjárins í eigu aðila á Vestfjörðum, meðal þeirra starfsmenn félagsins sem höfðu keypt hlutabréf í félaginu. HG í Hnífsdal var meðal stærstu hluthafa með 2,1%. Ætla má að söluverð hlutar þess hafi verið um 3,7 milljarðar króna.
Þá er félagið FnF ehf skráð á Ísafirði og í eigu Guðmundar Fertram Sigurjónssonar og eiginkonu hans. Það átti 5,9% hlutafjárins. Verðmæti þess gæti verið 10,3 milljarðar króna. Þriðji stærsti hluthafinn er BBL ehf með 11% hlutafjár. Guðmundur er skráður eigandi að 37,2% hlutafjár í því. Hlutur BBL ehf reiknast vera 19,3 milljarða króna virði og hlutur Guðmundar þar 7,2 milljarðar króna.
Heimild: BB.is