Rafmagnsstrengur frá Landeyjarsandi til Vestmannaeyja bilaði í janúar en vonast er til þess að viðgerðum ljúki um aðra helgi. Landsnet hefur sent umsókn um leyfi til að flýta framkvæmdum á nýjum streng sem fyrirhugað er að taka í notkun 2025.
Vonast er til að viðgerðum á rafmagnsstreng frá Landeyjasandi til Vestmannaeyja ljúki um aðra helgi. Strengurinn bilaði 31. janúar 5 kílómetrum frá tengivirki við Rimakot á Landeyjasandi, einum kílómetra frá landi. Strax varð ljóst að þetta yrði stór og umfangsmikil viðgerð.
„Þetta er ekki bara stærsta verkefni heldur er þetta líka langdýrasta verkefni sem við höfum farið í og þetta mun leggja sig á svona kringum milljarð þegar upp er staðið,“ segir Steinunn Þorsteinsdóttir upplýsingafulltrúi Landsnets.
5 varaaflsvélar Landsnets eru í Eyjum sem geta framleitt 6 megavött. Komi til eldgoss gæti þurft að nýta þær annars staðar og því nauðsynlegt að flýta viðgerð á Vestmannaeyjastrengnum. Steinunn segir að straumar og öldugangur hafi tafið verkið og erfitt er að koma viðgerðarskipi að staðnum.
Mannfrek viðgerð
Það kostar sitt að leigja prammann Henry P Lading sem er í eigu dansks verktakafyrirtækis. Pramminn kom við sögu 1968 þegar Eyjamenn fengu sína fyrstu vatnslögn úr landi. Margir koma að viðgerðunum, meðal annars 4 kafarar. Keyptur var þriggja kílómetra langur strengur auk tengibúnaðs.
„Við erum að vona að viðgerð ljúki um aðra helgi. Þá verðum við komin með spennu á Vestmannaeyjarlínu 3. Það er alla vega draumurinn að svo verði“, segir Sigurður Sveinsson deildarstjóri HS Veitna í Vestmannaeyjum
Mikilvægt að tryggja lífæðina
„Þetta hefur kostað fyrirtæki og heimili hérna gríðarlegar miklar fjárhæðir og ég tala nú ekki um umhverfisþáttinn. Hluti af samfélaginu öllu hefur verið keyrður með olíu síðan í lok janúar. Það er löngu kominn tími á viðgerð en við búum við þetta. Það er ekki hægt að gera við strenginn nema í ákveðnum glugga yfir sumartímann“, segir Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri i Vestmannaeyjum.
Vestmanneyingar hafa lengi lagt áherslu á að nýr strengur verði lagður til að tryggja nægjanlegt rafmagn komi til bilunar eins og í lok janúar.
„Þegar við lendum í atburðum eins og þessum þá sjáum við það að það er mikilvægt að geta tryggt lífæðina til Eyja með einhverjum hætti og við erum nú þegar farin að leggja drög að næsta streng og munum að öllum líkindum byrja á þeirri vinnu eftir svona 2-3 ár,“ segir Steinunn hjá Landsneti.
Landsnet hefur sent umsókn um leyfi til Orkustofnunar að flýta framkvæmdum á nýjum streng sem fyrirhugað er að taka í notkun 2025. Áætlað er að sæstrengurinn verði lagður sumarið 2025 í stað 2027 og mun hann verða 66 kílóvattstund og sambærilegur þeim sem nú er verið að gera við.
Heimild: Ruv.is