Home Fréttir Í fréttum Líkur á hitaveitu um Fjarðarheiðargöng fara minnkandi

Líkur á hitaveitu um Fjarðarheiðargöng fara minnkandi

58
0
Fyrirhugaður gangamunni Egilsstaðamegin Úr matsskýrslu Vegagerðarinnar – Mannvit

Til stendur að setja upp miðlæga varmadælu á Seyðisfirði til að hita hús í bænum. Hún kæmi í stað kyndistöðvar RARIK sem er óhagstæð í rekstri. Þetta minnkar líkur á að heitavatnspípa verði lögð í fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng í náinni framtíð.

<>

Húshitun á Seyðisfirði er orðin dýr og óumhverfisvæn. RARIK rekur þar fjarvarmaveitu sem þarf að kaupa mikla raforku eða jafnvel brenna olíu til að hita vatn sem dælt er um bæinn. RARIK vill loka veitunni og hefur málið verið til umræðu árum saman.

Heitavatnsæð kæmist ekki í gagnið fyrr en eftir 7-10 ár
Eitt af því sem kom til greina var að leggja rör fyrir heitt vatn í fyrirhuguð Fjarðarheiðargöng og hita hús á Seyðisfirði með jarðhita frá Héraði. Starfshópur hefur nú skilað valkostagreiningu og þar er hitaveita frá Héraði ekki efst á blaði. Heitavatnsæð frá Egilsstöðum að Seyðisfirði gæti kostað tæpan milljarð eða á bilinu 890-980 milljónir. Hún kæmist ekki í gagnið fyrr en eftir 7-10 ár og mikið orkutap yrði á leiðinni. Þá er óvissa um hvort nægt heitt vatn er á Héraði fyrir Seyðisfjörð líka.

Eiga samt frátekið pláss fyrir framtíðarpípu
HEF veitur eru reyndar að leita að meiri orku og eiga frátekið pláss í fyrirhuguðum göngum fyrir heitavatnsrör. Ekki hefur verið ákveðið hvort lagt verður í kostnað eða leiðir kannaðar til að auðvelda framkvæmdir við að setja niður heitavatnsæð í göngin síðar eða eftir að þau komast í notkun.

Miðlæg varmadæla betri en sérlausn fyrir hvert hús
Starfshópnum hugnast hins vegar best að miðlæg varmadæla komi í stað kyndistöðvar RARIK. Dælan safnar varma úr lofti og notar hann ásamt rafmagni til að hita vatn. Mögulega þyrfti einnig að vera kyndistöð sem brennir viðarperlum á álagstímum. Slíkt ætti að lækka kyndikostnað og losa bæjarbúa undan því að setja upp suðandi varmadælu við hvert hús.

Ríkið fengi 50 milljóna ávinning árlega
Kerfið gæti komist í gagnið á næstu tveimur árum og myndi ríkissjóður losna við niðurgreiðslur á raforku til húshitunar sem nema um 35 milljónum á ári. Þetta myndi líka spara raforku og er sparnaðurinn áætlaður 10-11 GWh á ári. Það rafmagn yrði þá selt til annars en húshitunar og ávinningur ríkissjóðs af því gæti numið 15-20 milljónum ári en hærri virðisaukaskattur er á raforku til almennra nota.

Viðræður við RARIK framundan
Byggðaráð Múlaþings hefur samþykkt að þessi lausn verði valin og að HEF veitur sjái um reksturinn. Brátt hefjast viðræður um þessar hugmyndir við RARIK sem mögulega á eftir að styrkja framkvæmdir til að losa sig út úr rekstri fjarvarmaveitunnar á Seyðisfirði. Dreifikerfi veitunnar er orðið gamalt og fyrirsjáanlegt að leggja þurfi í talsverðan kostnað við endurnýjun á næstu árum.

Heimild: Ruv.is