Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir hafnar vegna nýrra vindmylla í Þykkvabæ

Framkvæmdir hafnar vegna nýrra vindmylla í Þykkvabæ

153
0
Járnabindingarflokkur hefur verið að störfum við undirstöðurnar undanfarna daga. Stefnt er að því steypt verði á föstudag. EINAR ÁRNASON

Framkvæmdir eru hafnar í Þykkvabæ vegna tveggja vindmylla, sem fyrirhugað er að rísi í september á undirstöðum þeirra vindmylla sem þar stóðu áður. Ný viðhorfskönnun sýnir að sextíu prósent íbúa í Þykkvabæ eru andvígir nýjum vindmyllum.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 voru rifjaðar upp myndirnar af því þegar vindmyllurnar í Þykkvabæ voru felldar í fyrra. Sú fyrri féll í janúar og sú seinni í september en fyrirtækið sem reisti þær upphaflega, Biokraft, var þá orðið gjaldþrota.

Seinni vindmyllan var felld síðastliðið haust.
STÖÐ 2/SKJÁSKOT

Þótt vindmyllurnar féllu stóðu undirstöðurnar eftir. Fyrirtæki sem tók yfir eignir þrotabúsins, Háblær, er núna að lagfæra undirstöðurnar og er fyrirhugað að nýjar vindmyllur rísi á þeim í september, að sögn Ásgeirs Margeirssonar, stjórnarformanns Háblæs.

Hann segir nýju vindmyllurnar verða sex metrum lægri en þær gömlu og með jafnstórum spöðum en þó fimmtíu prósent aflmeiri vegna nýrrar tækni, eða 1,8 megavött meðan þær gömlu voru 1,2 megavött.

 

Nýjar vindmyllur í Þykkvabæ verða sex metrum lægri en þær sem áður stóðu.
EINAR ÁRNASON

Sveitarstjórn Rangárþings ytra lét gera viðhorfskönnun í maímánuði meðal íbúa Þykkvabæjar þar sem fram kom að sextíu prósent sögðust andvíg nýjum vindmyllum. Könnunin var þó hvorki ráðgefandi né bindandi á nokkurn hátt fyrir sveitarstjórn, að sögn Eggerts Vals Guðmundssonar, oddvita Rangárþings ytra.

„En við munum auðvitað taka tillit til þessarar niðurstöðu. Það virðist vera eins og tveir af hverjum þremur sem búa þarna næst séu andvígir,“ segir oddvitinn.

En hvernig skýrir hann andstöðu Þykkbæinga við nýjar vindmyllur?

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings ytra.
EINAR ÁRNASON

„Fólki finnst þetta bara of nálægt og hávaðamengun og svo framvegis. Ég hef svo sem ekki krufið það neitt sérstaklega,“ segir Eggert.

Vart verður séð hvernig sveitarstjórnin hyggst úr þessu taka tillit til andstöðunnar því hún er þegar búin að veita byggingarleyfi fyrir nýjum vindmyllum. Oddvitinn bendir þó á að stjórnsýslukæra sé óáfgreidd í kerfinu vegna ákvörðunar Skipulagsstofnunar um að nýjar vindmyllur þyrftu ekki nýtt umhverfismat.

„Það verður fróðlegt að sjá hvað kemur út úr því. En eins og staðan er í dag þá er verið að gera þetta á grundvelli gilds deiliskipulags,“ segir Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings ytra.

Heimild: Visir.is