„Á heildina litið verður fyrirtækið betur í stakk búið til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar,” segir sviðsstjóri innri þjónustu Mannvits um kaup COWI á félaginu.
Íslenska verkfræðistofan Mannvit var nýlega keypt af alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækinu COWI Group og gengu kaupin í gegn 31. maí síðastliðinn.
COWI í Danmörku og Mannvit, auk ráðgjafarfyrirtækisins Arup frá Englandi, undirrituðu samning í október 2020 um verkefnastjórnun og ráðgjöf fyrir Borgarlínuna. Þar hófst samstarf COWI og Mannvits fyrir alvöru.
Teymi Mannvits, COWI og Arup hlaut hæstu einkunn fyrir útfærslu á verkefninu auk þess sem tilboð þess var hagstæðast. Felst ráðgjöfin í því að veita verkefnastjórn og sérfræðiþekkingu á lykilsviðum við uppbyggingu Borgarlínu, nýs samgöngukerfis fyrir almenning á höfuðborgarsvæðinu.
„COWI og Mannvit hafa tekið þátt í verkefnum saman í nokkur ár. Stærsta verkefnið er Borgarlínan, en fyrirtækin buðu saman í það á sínum tíma og eru þannig með sameiginlegan samning við Borgarlínuna. Þá byrjaði farsælt samstarf félaganna fyrir alvöru.“
Steinunn segir að kaup COWI á Mannviti muni gera sameinuðu félagi auðveldara fyrir að sækja stærri verkefni á borð við Borgarlínu.
„Við hefðum ekki getað boðið í Borgarlínuverkefnið ein okkar liðs. Við þurftum að vera í samstarfi við reyndari aðila til að eiga möguleika á slíku verkefni. Við höfum séð það í útboðum hér á landi að nú eru gerðar auknar kröfur um sérþekkingu og reynslu sem íslenskar verkfræðistofur eiga erfitt með að uppfylla nema þau séu í samstarfi við erlenda aðila.
Nú erum við orðin hluti af fyrirtæki sem mun auka samkeppnishæfni okkar til muna. Á sama tíma og það verður auðveldara fyrir okkur að sækja í stærri verkefni er COWI að nýta þekkingu okkar og reynslu erlendis. Á heildina litið verður fyrirtækið betur í stakk búið til þess að takast á við áskoranir framtíðarinnar.“
Fjallað er nánar um kaup COWI á Mannviti í Viðskiptablaðinu sem kom út 30. júní.
Heimild: Vb.is