Grjóthaugur í Seljahverfi ætti að minnka á næstu vikum. Verktaki hefur lagt inn umsókn um flýtimeðferð hjá byggingarfulltrúa til þess að geta hafið jarðvegsskipti sem fyrst. Þá verður íbúum boðinn gluggaþvottur að verki loknu en búist er við að framkvæmdum ljúki um mitt næsta ár.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í svörum Evu Bergþóru Guðbergsdóttur, samskiptastjóra Reykjavíkurborgar, til Vísis. Íbúar eru ósáttir við hauginn, sem er gríðarlega stór og hefur safnast upp á horni Álfabakka og Árskóga vegna framkvæmda við nýja verslun Garðheima og hjólastíga. Þeir hafa kvartað töluverðu sandfoki vegna hans.
„Búist er við að framkvæmdum við byggingu um 14 þúsund fermetra þjónustu og verslunarhúsnæðis á lóðunum Álfabakka ljúki um mitt næsta ár,“ segir í svörum borgarinnar. Íbúum verði boðinn gluggaþvottur að verki loknu.
„Haugurinn ætti að minnka á næstu vikum en framkvæmdaraðili hefur lagt inn umsókn um flýtimeðferð hjá byggingafulltrúa til að geta hafið jarðvegsskipti sem fyrst.“
Hefði annars þurft að flytja efni frá Bolöldu
Þá kemur fram í svörum borgarinnar að með því að vinna grjóthauginn upp úr jörð í grennd við framkvæmdastað sparist hundruð vöruflutningaferða sem hefðu annars farið í gegnum hverfið.
„Ef efnið hefði ekki komið úr nærliggjandi lóðum hefði þurft að sækja það upp í Bolöldu að sögn framkvæmdaraðila, en það er um 50 kílómetra hringur fyrir hvern vörubíl en um er að ræða nokkur hundruð vörubílsfarma.“
Heimild: Visir.is