Í apríl seldust aðeins 531 íbúð á landinu öllu. Hagfræðingur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar segir að það gæti hreinlega verið betra að spara peninga á góðum innlánsvöxtum frekar en að kaupa fasteign.
Óverðtryggðir vextir lána, sem tryggð eru með fyrsta veðrétti í íbúðum, eru komnir yfir tíu prósent og hafa ekki verið svo háir svo langt sem tölur Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar ná. Hrein ný íbúðalán til heimila halda áfram að dragast saman og námu tæpum þrem milljörðum króna í apríl en voru rúmlega átta í mars. Hafa þau ekki verið svo lítil á núverandi verðlagi síðan í apríl 2014.
Kári S. Friðriksson er hagfræðingur hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun: „Þetta bara segir okkur að Seðlabankinn hefur verið að stíga svolítið vel á bremsuna í baráttunni við verðbólguna. Og fyrir vikið þá eru vextir á óverðtryggðum lánum það háir að það eru fáir sem ná að fjármagna íbúðarkaup alfarið með óverðtryggðum lánum.“
Flestir íbúðarkaupendur verði því að halla sér að verðtryggðum lánum. Kári segir augljóst að nú séu færri fyrstu kaupendur en áður. Vextir séu háir, greiðslubyrðin þung og því standist fólk ekki greiðslumat: „Svo er hin hliðin líka að það gæti hreinlega borgað sig að bíða aðeins með fasteignakaup, að koma inn á markaðinn, og spara frekar á góðum innlánsvöxtum.“
Heimild: Ruv.is