Home Fréttir Í fréttum Eins konar vélköngulær munu klifra við Kárahnjúkastíflu

Eins konar vélköngulær munu klifra við Kárahnjúkastíflu

198
0
Kárahnjúkastífla liggur upp að fremri Kárahnjúk. RÚV

Næstu tvo mánuði verður unnið að grjótvörnum við Kárahnjúkastíflu og eins konar vélköngulær klifra í fremri Kárahnjúk til að koma fyrir öflugum girðingum. Framkvæmdin kostar um 300 milljónir og verður veginum yfir stífluna lokað á vissum tímum.

<>

Landsvirkjun þarf að fara í 300 milljóna króna framkvæmdir við Kárahnjúkastíflu til að hindra grjóthrun niður á veginn. Veginum yfir stífluna verður lokað á vissum tímum næstu tvo mánuði hið minnsta og þeir sem vilja skoða náttúruperlur þurfa að fara aðra leið á meðan lokanir vara.

Talsverð umferð yfir stífluna á sumrin
Á sumrin er talsverð umferð upp í Kárahnjúka því ferðamenn eru áhugasamir um virkjunina. Þaðan liggur líka jeppavegur í Laugavalladal, þar sem hægt er að baða sig í heitum fossi, og að tilkomumiklum gljúfrum. Það eru Dimmugljúfur og Hafrahvammagljúfur en til að komast þangað upp úr Fljótsdal þarf að aka yfir Kárahnjúkastíflu.

Þar sem stíflan liggur upp að fremri Kárahnjúk er mikið grjóthrun. Bergið þar molnar mjög og hefur áður verið gripið til ráðstafana til að hindra hrun niður á veginn. Bindiboltum, mottum, netum og girðingum hefur verið komið fyrir en í sumar á að gera miklar úrbætur og endurnýja yfir 15 ára gamla grjótvarnargirðingu. Samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun kostar framkvæmdin um 300 milljónir og verða sérhæfðar vinnuvélar á klifurfótum notaðar til verksins.

Hægt að kynna sér lokanir á vef Vegagerðarinnar
Á meðan á framkvæmdum stendur þarf að loka veginum yfir stífluna og í dag verður umferð stýrt. Fram kemur á vef Landsvirkjunar að lokað verði valda daga fram í lok ágúst mest í upphafi og lok framkvæmda. Er þá miðað við hálfan sólarhringinn, eða frá sjö á morgni til sjö að kvöldi.

Umferð verður þó hleypt í gegn þrisvar á dag klukkan 10 fyrir hádegi og svo klukkan eitt og fjögur eftir hádegi, í korter í senn. Á vef Vegagerðarinnar verður hægt að sjá hvenær lokunardagar eru. Lokanir hindra þó ekki alveg aðgengi að Laugavalladal og gljúfrunum því hægt er að komast þangað upp úr Jökuldal eða Möðrudalsleið og Brúarveg í staðinn.

Heimild: Ruv.is