Home Fréttir Í fréttum Miklar framkvæmdir á og við Grenivík í sumar og næstu misseri

Miklar framkvæmdir á og við Grenivík í sumar og næstu misseri

104
0
Mynd á vef Grýtubakkahrepps – grenivik.is

Miklar framkvæmdir eru í gangi á og við Grenivík. Verður svo í sumar og líklega næstu misseri

<>

Höfði Lodge vinnur nú að gerð hjólastíga í Höfðanum. Stígagerð er unnin í samráði við sveitarfélagið og verða stígarnir opnir öllum þegar þeir verða tilbúnir. Áfram verður unnið að stígagerð í fjöllum hér í kring þegar lokið verður við verkið í Höfðanum og gilda mun hið sama, stígar verða opnir almenningi þó Höfði Lodge muni nýta þá fyrir sína starfsemi.

Áhersla er lögð á að gera vandaða stíga sem þjóni vel til framtíðar. Jafnframt er viðmið að leggja þá fallega í landið með lágmarks raski, lyng og annar gróður verður færður til í köntum svo fari sem allra best. Þá er miðað við að sýn frá þorpinu spillist sem minnst, þ.e. að stígar skeri ekki í augu í þeim hlíðum sem að þorpinu snúa.

Ný atvinnutækifæri kalla á meira húsnæði
Góður skriður er á byggingu raðhússins við Höfðagötu. Hafin er vinna við fleiri íbúðarhús og munu enn fleiri væntanlega bætast við í sumar, við Ægissíðu, Höfðagötu og Lækjarvelli. Enn er eftirspurn eftir lóðum, enda hefur verið viðvarandi húsnæðisskortur og ný atvinnutækifæri munu kalla á enn meira húsnæði. Þá er ógetið um byggingar í Höfðafit, íbúðarhús og fleira.

Stefnt er að lengingu Lækjarvalla að Kirkjuvegi. Fyrri áfangi, jarðvegsskipti og lagnir er að fara í verðkönnunarferli hjá verktökum og ef viðunandi tilboð fæst í verkið er áformað að ljúka áfanganum fyrir veturinn. Malbikun og lokafrágangur verður síðan á næsta ári. Með lengingunni fást 8 nýjar lóðir sem eru skipulagðar hvort heldur sem er fyrir einbýlishús, parhús eða raðhús. Ætla má að á þessum 8 lóðum geti því risið jafnvel 12 til 16 íbúðir á næstu árum.

Vélasamstæða á leiðinni og hótelbygging að rísa
Unnið er af krafti við nýbyggingu Pharmarctica og styttist í að vélasamstæður fari að koma inn, þó aðstæður í heiminum kunni að tefja eitthvað afhendingu þeirra að hluta.

Ekki síður er góður gangur í hótelbyggingunni, Höfði Lodge, en reikna má með að það verði tilbúið og opnað fyrir gestum á fyrri hluta næsta árs.

Þegar hefur verið skipt um hluta flotbryggju í höfninni, bætt við rafmagnstengla og festingar bryggju styrktar.

Framkvæmdir eru einnig í gangi við Grenilund, viðgerð á ónýtum þakrennum og verið að steypa stétt með hitalögnum sem eykur öryggir og bætir lífsgæði íbúða og starfsfólks. Einnig verður unnið við fyrsta áfanga að endurbótum á lóð Grenivíkurskóla, en það verkefni er langþráð og tekur tvö til þrjú ár að klára. Eins verður farið í endurbætur á lóð Leikskólans meðan hann verður lokaður í sumar.

Eftir miðjan mánuðinn verður farið í að skipta um tanka á bensínstöð N1 og dælur færðar til fjær húsinu sem skapar aukið rými á baklóð Grýtu. Jafnframt verður skipulagi lóðar breytt aðeins og bílastæðum fjölgað. Þetta mun bæta aðgengi t.d. að veitingahúsinu og auðvelda umferð um baklóðina verslunar. Fjallað er um framkvæmdirnar á vefsíðu sveitarfélagsins.

Heimild: Vikubladid.is