Home Fréttir Í fréttum Borgartún einn ódýrasti fermetri landsins

Borgartún einn ódýrasti fermetri landsins

156
0
Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson

„Kjallaraíbúð á Ólafsfirði eða íbúð á Raufarhöfn eiga erfitt með að keppa við þessi verð,“ segir Snorri Jakobsson.

<>

Snorri Jakobsson, eigandi og framkvæmdastjóri Jakobsson Capital, segir fyrirhuguð kaup Regins á Eik ekki koma sérlega mikið á óvart í ljósi þess hve undirverðlögð fasteignafélögin í Kauphöllinni eru.

„Eitt ódýrasta fermetraverð landsins er í Borgartúni. Kjallaraíbúð á Ólafsfirði eða íbúð á Raufarhöfn eiga erfitt með að keppa við þessi verð.“ Hann telur í ljósi þess ekki ólíklegt að fasteignfélögin muni í einhverjum tilfellum leitast eftir að selja fasteignir. „Ef markaðurinn er að verðleggja fasteignir lægra en undirliggjandi verðmæti þeirra gefur til kynna getur hreinlega verið betra fyrir hluthafa að losað sé um hluta eignasafnsins.“

Í tilkynningu þar sem greint var frá viðskiptunum kom einmitt fram að gert sé ráð fyrir að fasteignasafn Eikar verði „straumlínulagað“. Það feli meðal annars í sér að ákveðnar eignir verði seldar auk þess að þær eignir sem teljist til þróunareigna verði þróaðar í samstarfi við sérhæfðan aðila með það að markmiði að hámarka verðmæti fyrir hluthafa. Gert sé ráð fyrir að um þriðjungur af stærð eignasafns Eikar falli undir straumlínulögunina sem ráðgert sé að geti tekið allt að 36 mánuði.

Snorri bendir á að markaðurinn hafi að sama skapi ekki heldur sýnt hinum svokölluðu arðgreiðslufélögum mikinn áhuga og mesti áhuginn beinst að vaxtarfélögum. „Ef vaxtastig verður svipað hátt og það er núna til lengri tíma erum við væntanlega að fara horfa fram á breyttan veruleika hjá vaxtarfélögunum. Arðgreiðslufélögin hafa svolítið setið á hakanum og í einhverjum tilfellum getur markaðsvirði þeirra orðið lægra en upplausnarvirði.“

Heimild: Vb.is