Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir verðmæti Keldnalands verða endurmetið til hækkunar. Það var metið á 15 milljarða árið 2019 en margt bendir til að það hafi að minnsta kosti tvöfaldast.
„Það er verið að uppfæra Samgöngusáttmálann en sala lóða í Keldnalandi er hluti af fjármögnun hans. Við munum leggja fram nýtt verðmat á landinu, rétt eins og við erum að uppfæra allar tölur sáttmálans. Það er mikil verðbólga, sérstaklega í verklegum framkvæmdum, þannig að þær tölur eru að hækka.
Það hefur líka komið fram að fjárfestingar sáttmálans hafi verið vanáætlaðar. Það blasir því við, og hefur komið fram, að þær tölur fara hækkandi. Þannig að á sama tíma verðum við að leggja mat á tekjuhliðina í sáttmálanum og endurmeta hvað er raunhæft. Ég geri því ráð fyrir að það verði settur nýr verðmiði á landið í sumar,“ segir Davíð um verðmatið.
Fjallað er um hugsanlegt verðmæti byggingarlóða í Keldnalandi í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að gera megi ráð fyrir að minnsta kosti 2.600 íbúðum á almennan markað. Ef þær eru 100 fermetrar og lóðaverðið 100-130 þúsund á fermetra gæti sala lóðanna skilað 26-34 milljörðum króna.
Milljarðar í atvinnulóðir
Þá er gert ráð fyrir atvinnuhúsnæði fyrir 5.000 starfsmenn. Miðað við að 20 fermetrar verði byggðir á hvern starfsmann, og fermetraverðið sé 50-60 þúsund, gæti sala þeirra lóða skilað 5-6 milljörðum. Við það bætast gatnagerðargjöld.
Samanlagt gæti lóðasalan því skilað allt að 40 milljörðum. Endanlegt skipulag liggur ekki fyrir og gæti sú upphæð hækkað ef til dæmis íbúðum verður fjölgað.
Tekjunum á að ráðstafa í þágu samgangna, þar með talið borgarlínu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.
Heimild: Mbl.is