Home Í fréttum Framkvæmdir í gangi Brúargerð á lokasprettinum og útboð næsta hluta líklega í vetur

Brúargerð á lokasprettinum og útboð næsta hluta líklega í vetur

189
0
Gólfið á brúni yfir Þorskafjörð var steypt síðasta haust. RÚV – Elsa María Guðlaugs Drífudóttir

Þverun Þorskafjarðar í Reykhólahreppi gengur vel og er á endasprettinum. Næsti hluti nýs Vestfjarðavegar í Gufudalssveit verður að öllum líkindum boðinn út næsta vetur.

<>

Góður gangur hefur verið í framkvæmdum í Þorskafirði allt frá því þær hófust fyrir tveimur árum. Þar er unnið alla daga á tólf tíma vöktum.

„Við erum núna með um fimmtán manns hérna. Átta gröfur, tvær jarðýtur, búkollur. Nefndu það bara, bara það sem þarf. Þetta er gríðarlegt mannvirki. Til dæmis með brúna sjálfa, það fóru í hana um fjögur þúsund rúmmetrar af steypu. 400 tonn af járni, þannig að þetta er talsvert mikið,“ segir Einar Valur Valgarðsson, verkstjóri Suðurverks í Þorskafirði.

Einar telur óhætt að segja að verkið sé á lokasprettinum.

„Núna erum við bara að halda áfram að tengja vestur yfir og klára fyllingarvinnuna. Eins erum við að rofverja með grjóti.“

Gætu afhent brúna fyrir verklok

Gólfið í Þorskafjarðarbrú, sem er 260 metrar að lengd, var steypt í haust. Það er kannski ekki nema von að fólk spyrji sig: „Hvenær er hægt að keyra yfir?“

„Verklok eru samkvæmt samningi fyrsta júlí ’24, en það er svo sem möguleiki á að klára þetta fyrr ef það er vilji fyrir því,“ segir Einar.

Þverun Þorskafjarðar var fyrsti áfanginn sem var boðinn út á hinni svokölluðu ÞH-leið. Hún liggur meðal annars um Teigsskóg. Þar er vegagerð líka í fullum gangi, en hún var mikið gagnrýnd vegna neikvæðra umhverfisáhrifa.

Gufufjörður og Djúpifjörður að öllum líkindum boðnir út í haust

Hafist var handa við þverun Þorskafjarðar fyrir tveimur árum. Hún kostar ríflega tvo milljarða. Vegagerð um Teigsskóg á að klárast í október. Hún kostar rúmlega 1,2 milljarða til viðbótar. Þá er unnið að því að klára útboðsgögn fyrir næstu verkhluta, sem er að setja fyllingar í Djúpafjörð og Gufufjörð, áður en þeir verða endanlega brúaðir.

Það verður að öllum líkindum boðið út í haust, en brýrnar sjálfar síðar. Ekki liggur fyrir hvað sú framkvæmd kostar.

Við þetta styttist leiðin um 22 kílómetra, og þá verður hægt að keyra alla sunnanverða Vestfirði á bundnu slitlagi.

Heimild: Ruv.is