Home Fréttir Í fréttum Blessa framkvæmdaleyfi fyrir hina umdeildu Hvammsvirkjun

Blessa framkvæmdaleyfi fyrir hina umdeildu Hvammsvirkjun

138
0
RÚV – RÚV - Landsvirkjun

Bæði Skeiða-og Gnúpaverjahreppur og Rangárþing ytra leggja til að gefið verði út framkvæmdaleyfi fyrir hina umdeildu Hvammsvirkjun. Landsvirkjun greiðir Skeiða-og Gnúpverjahreppi 70 milljónir vegna uppgjörs á 15 ára gömlu rammasamkomulagi.

<>

Skeiða-og Gnúpverjahreppur og Rangárþing ytra leggja til að framkvæmdaleyfi verði gefið út fyrir hina umdeildu Hvammsvirkjun að uppfylltum 16 skilyrðum.

Þetta kemur fram í sameiginlegri greinargerð sveitarfélaganna sem er dagsett 31. maí. Greinargerðin var lögð fram á fundi skipulags-og umferðarnefndar Rangársþings í byrjun mánaðarins. Nefndin leggur til að sveitarstjórn gefi út framkvæmdaleyfið.

Greinargerðin var einnig lögð fram á sveitarstjórnarfundi Skeiða-og Gnúpverjahrepps í vikunni. Þar hefur verið boðað til aukafundar í sveitarstjórn þann 14. júní þar sem framkvæmdaleyfið verður væntanlega afgreitt endanlega.

95 MW virkjun sem kostar meira en 45 milljarða
Með Hvammsvirkjun verður nýtt 352 rúmmetra rennsli á sekúndu og 32 metra fall Þjórsár á um 9 kílómetra löngum langa kafla frá Yrjaskeri að neðri enda Ölmóðseyjar. 0,14 ferkílómetrar af votlendi og rúmir 5 ferkílómetrar af öðru gróðurlendi raskast vegna haugsetningar og lóns.

Með framkvæmdinni verður að veruleika 95 MW vatnsaflsvirkjun með árlega orkuvinnslu uppá 740 GWh. Áætlaður kostnaður gæti orðið meira en 45 milljarðar og Landsvirkjun bindur vonir við að virkjunin verði komin í gagnið 2026.

Sveitarfélögin viðurkenna í greinargerð sinni að bygging Hvammsvirkjunar sé mikið inngrip í náttúrulegt lífríki Þjórsár. Þau telja mikilvægt að leitað verði allra leiða til að lífríki Þjórsár verði fyrir sem minnstum skaða og að Landsvirkjun og Veiðifélag Þjórsár vinni saman til að lágmarka þann skaða sem bygging virkjunarinnar hafi á náttúrulegt umhverfi Þjórsár.

Mótvægisaðgerðir opni nýja afþreyingarstaði
Sveitarfélögin telja einnig að mótvægisaðgerðir Landsvirkjunar vegna áhrifa Hvammsvirkjunar á ferðaþjónustu og útivist skapi „það heildarjafnvægi milli útlits mannvirkja, landmótunar og náttúrulegs umhverfis,“ sem kallað hafi verið eftir í áliti Skipulagsstofnunar. Aðgerðirnar dragi að einhverju leyti úr sjónrænum áhrifum.

Mikill fjöldi ferðamanna fari um svæðið og þeim eigi eftir að fjölga með tilkomu fleiri ferðaþjónustuaðila, afþreyingarmöguleika og áfangastaða.

Haraldur Þór Jónsson er sveitarstjóri Skeiða-og Gnúpverjahrepps.
RÚV – Bragi Valgeirsson

Hvammsvirkjun eigi eftir að hafa neikvæð áhrif á útivist og ferðaþjónustu en með mótvægisaðgerðum á borð við ásýnd mannvirkja og lóna auk göngu-og reiðleiða yfir stífluna opnist möguleikar á nýjum afþreyingarstöðum. Þannig sé hægt að draga úr þeim áhrifum sem virkjunin hafi að hluta á ferðaþjónustu og útivist.

Gera upp 15 ára gamalt rammasamkomulag
Á sveitarstjórnarfundi Skeiða-og Gnúpverjahrepps á miðvikudag var einnig lagt fram samkomulag sem hreppurinn gerir við Landsvirkjun um fullnaðaruppgjör á 15 ára gömlu rammasamkomulagi. Upphæðin nemur tæpum 70 milljónum.

Rammasamkomulagið náði til þriggja virkjana ; Hvammsvirkjunar, Holtavirkjunar og Urriðafossvirkjunar.

Tvær síðarnefndu virkjanirnar eru í biðflokki rammaáætlunar og óvíst hvort eða hvenær þær færast í nýtingarflokk.

Hæsta upphæðin er vegna Þjórsárstofu. Landsvirkjun átti að greiða eða kosta framkvæmdir við hana og húsnæði uppá samtals 85 milljónir. Fram kemur í uppgjörinu að Landsvirkjun hafi á árunum 2009 til 2016 greitt rúma 61 milljón og eftirstöðvar því numið 24 milljónum eða 46 milljónir á núvirði.

Heimild: Ruv.is