Nýtt gagnaver atNorth að Hlíðarvöllum 1 á Akureyri var formlega vígt í dag að viðstöddu lykilfólki sem kom að undirbúningi, framkvæmdum og fjármögnun verkefnisins.
Skrifað var undir viljayfirlýsingu milli Akureyrarbæjar og atNorth í apríl í fyrra, skóflustunga tekin að byggingunni um mitt síðasta ár og reisugillið var í nóvember. Nú er fyrsta áfanga verksins lokið og húsið formlega tekið í notkun. Kostnaður nemur vel á þriðja milljarð króna.

Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri atNorth, sagði í athöfninni að um 80 manns hefðu lagt hönd á plóg við uppbygginguna og lauk lofsorði á hversu vel hefði verið að verki staðið.
„Þetta er stór dagur fyrir okkur og nærsamfélagið á Akureyri. Gagnaverið er það fullkomnasta sinnar tegundar og fjarlægð frá öðrum starfsstöðvum atNorth gefur viðskiptavinum færi á að tryggja landfræðilegan aðskilnað milli sinna tölvukerfa. Þannig tekst að lágmarka hættuna af mögulegum truflunum, t.d. vegna náttúruvár. Það styrkir okkar samkeppnisstöðu,“ sagði Eyjólfur Magnús.

Fyrsti áfangi gagnaversins er í tveimur 2.500 fermetrar samtengdum byggingum en fullbyggt verður það rekið í fimm byggingum. Þá er gert ráð fyrir þremur skrifstofu- og þjónustuhúsum á lóðinni.
Fyrirtækið er með starfsemi á Íslandi, Svíþjóð og Finnlandi, en ástæða þess að Akureyri varð var yfir valinu fyrir nýjast gagnaverið var m.a. þekking og mannauður sem til staðar er í bænum. Þá dreifist áhættan landfræðilega en gagnaver félagsins hér á landi eru einkum á Reykjanesi. Eins nefndi hann góðar samgöngur, m.a. í flugi og aukið öryggi í raforkumálum með tilkomu Blöndulínu.
Uppbygging gagnavera í Evrópu hefur á undanförnum árum færst sífellt norðar í álfuna, þar sem hitastig er lægra, orkan endurnýjanleg, tæknilegir inniviðir eru sterkir og hæft fólk fæst til starfa.

Heimild: Mbl.is