Útlit er fyrir að á næstu þremur árum verði fullkláraðar íbúðir sem fari á markað 4.360 færri en áætluð þörf sem er á húsnæðismarkaði. Mun þetta skapa tilheyrandi ójafnvægi á milli fjölda fullbúinna íbúða og áætlaðrar þarfar. Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri greiningu Samtaka iðnaðarins á húsnæðismarkaðinum, en hún byggir að miklu leyti á tölum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun um fjölda íbúða í byggingu.
Samkvæmt spá HMS er gert ráð fyrir að á þessu ári komi samtals 2.800 fullkláraðar íbúðir á markaðinn. Til samanburðar komu um 3.800 fullkláraðar íbúðir inn á markaðinn árið 2020, en þeim fækkaði svo í um 3.200 árið 2021 og voru svo um 2.800 á síðasta ári. Það er því ekki nein fjölgun á nýjum íbúðum, heldur hefur þróunin verið niður á við.
Spá enn frekari samdrætti árin 2025 og 2026
Þegar horft er lengra fram í tímann gerir HMS ráð fyrir 2.800 íbúðum einnig árið 2024, en að árið 2025 og 2026 verði þær ekki nema um 2.000 fyrir hvort árið.
Þarfagreining HMS og húsnæðisáætlunar sveitarfélaga gerir hins vegar ráð fyrir því að það þurfi um 4.000 fullbúnar íbúðir í ár sem og næstu tvö ár þar á eftir.
Uppsafnað gat upp á 4.360 íbúðir
Fyrir árin 2023-2025 þýðir þetta misræmi á væntu framboði nýrra eigna og þörf markaðarins að samtals muni verða skortur upp á 4.360 íbúðir á þessum þremur árum, að því er segir í greiningu SI.
Þá er bent á að samkvæmt nýjustu talningu HMS á íbúðum í byggingu séu nú 1.700 íbúðir á framkvæmdastigum 1,2 og 4 sem voru einnig á þeim stigum í september. Segir í greiningunni að þetta bendi til þess að framkvæmdir á fyrri byggingarstigum séu að stöðvast vegna hækkandi vaxta og hækkandi byggingarkostnaðar.
Ólíklegt að markmið stjórnvalda náist
Er jafnframt vísað í markmið stjórnvalda um að 35 þúsund nýjar fullbúnar íbúðir verði reistar á tímabilinu 2023-2032, en SI telur ólíklegt að það markmið náist nema að stjórnvöld beiti sér og grípi á ákveðinn hátt inn í málið.
Leggja samtökin fram nokkrar tillögur að aðgerðum sem þau telja að ráðast verði í. Fyrst ber þar að nefna að þau telja að ríkisvaldið eigi að endurskoða áformaða lækkun endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna fasteignaframkvæmda. Þá þurfi jafnframt að gera hlutdeildarlán að raunhæfum kosti og setja meiri kraft í þá uppbyggingu.
Samtökin leggja einnig til að sveitarfélög stórauki framboð lóða og að þau endurskoði fyrirkomulag við innheimtu gjalda áður en framkvæmdir hefjist. „Síðast en ekki síst þarf samstillt átak ríkis, sveitarfélaga, Seðlabankans og aðila vinnumarkaðarins til að ná niður verðbólgu og verðbólguvæntingum en með því skapast grundvöllur fyrir lægri vöxtum,“ segir í greiningunni.
Heimild: Mbl.is