Home Fréttir Í fréttum Framkvæmdir í kirkjunni stopp

Framkvæmdir í kirkjunni stopp

99
0
Mynd: RÚV – Amanda Guðrún Bjarnadóttir

Í Grímsey hafa framkvæmdir í nýrri kirkju verið stöðvaðar vegna fjárskorts. Sóknarnefndarmeðlimur segir enn vanta um sextíu milljónir til að klára ætlunarverkið.

<>

Bygging nýrrar kirkju í Grímsey hefur verið sett á bið. Kirkjan er ekki orðin fokheld en fé til framkvæmdanna er uppurið.

Vilja ekki koma kirkjunni í skuld
Þegar kirkjan í Grímsey brann, 22. september 2021, ákváðu heimamenn að reisa nýja kirkju. Tryggingafé og ríkisstyrkur var fimmtíu milljónir króna. Að auki var ýtt úr vör söfnun til að fjármagna framkvæmdirnar. Áætlaður kostnaður var hundrað til hundrað og tuttugu milljónir. Framkvæmdir hafa nú verið stöðvaðar.

„Peningarnir eru búnir, sem við fengum í þetta. Bæði náttúrulega tryggingarféð og það sem var til og svo vorum við búnir að fá mikla og góða styrki alls staðar að úr heiminum eiginlega. En þeir peningar eru hreinlega búnir þannig að verkið er stopp í augnablikinu. Við erum að bíða hvort við getum safnað meiri pening því við viljum eki fara að setja kirkjuna í stórar skuldir,“ segir Svafar Gylfason, íbúi og sóknarnefndarmeðlimur í Grímsey.

Allir þættir framkvæmdar fóru fram úr áætlun
Svafar segir að allir þættir framkvæmdarinnar hafi farið fram úr áætlun, til dæmis kostnaður við efni og vinnuafl. Eins og við flestar aðrar framkvæmdir hafi þó verið gert ráð fyrir að fara nokkuð fram úr áætlun.

„En þetta var samt svolítið mikið, húsið er ekki enn búið að utan einu sinni og það er enn allt eftir inni þannig það kostar mikið að klára þetta.“

„Erum ekki með neina áætlun“
Svafar reiknar með að enn vanti um fimmtíu til sextíu milljónir til að ljúka kirkjubyggingunni. Engar augljósar lausnir séu í sjónmáli.

„Hvort að við stoppum bara framkvæmdir í einhver ár og reynum að safna peningum eða fáum einhvers staðar pening hreinlega, það verður bara held ég að koma í ljós. Við erum ekki með neina áætlun á því hvernig við ætlum að klára þetta dæmi eiginlega,“ segir Svafar.

Heimild: Ruv.is