Home Fréttir Í fréttum Skýr merki um sam­drátt í í­búða­upp­byggingu

Skýr merki um sam­drátt í í­búða­upp­byggingu

102
0
Sigurður Hannesson, framkvæmdarstjóri Samtaka iðnaðarins. Ljósmynd: Eyþór Árnason

Þrátt fyrir fólksfjölgun og mikla eftirspurn eftir íbúðum er útlit fyrir talsverðan samdrátt í íbúðauppbyggingu vegna hækkandi fjármagnskostnaðar.

<>

Mikið hefur verið fjallað um spennu á húsnæðismarkaði, hækkun íbúðaverðs og krefjandi aðstæður fyrir ungt fólk til að eignast fasteign. Þrátt fyrir mikla eftirspurn er hætta á verulegum samdrætti í íbúðaruppbyggingu miðað við nýlega greiningu Samtaka iðnaðarins (SI).

Samkvæmt niðurstöðum könnunar meðal stjórnenda verktakafyrirtækja í íbúðabyggingum reikna þessir aðilar með því að fjöldi íbúða sem byrjað verði á hjá þeirra fyrirtækjum á næstu tólf mánuðum verði 509 samanborið við 1.473 á síðustu tólf mánuðum, sem samsvarar 65% samdrætti.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir niðurstöðu könnunarinnar gefa til kynna að þó umsvif í byggingariðnaði séu mikil núna og uppbygging hafi verið nokkuð jöfn undanfarin ár þá sé útlit fyrir að talsvert færri nýjar íbúðir komi inn á markaðinn eftir 2-3 ár og að áhrifanna muni gæta strax árið 2025.

„Við höfum verið í vítahring sem kemur til vegna þess að of fáar íbúðir voru byggðar á síðasta áratug. Afleiðing þess er að fasteignaverð hækkaði töluvert umfram kaupmátt sem orsakaði verðbólgu. Við því er brugðist með hækkun vaxta. Hár fjármagnskostnaður er núna fram á veginn helsta fyrirstaðan fyrir meiri uppbyggingu. Það mun viðhalda þessu ástandi á húsnæðismarkaði ef ekkert verður að gert.“

Síðasta sumar gerðu ríkið og sveitarfélög með sér samkomulag um sameiginlega sýn og stefnu í húsnæðismálum með það að markmiði að byggðar verði 35 þúsund íbúðir á næstu tíu árum í samræmi við þarfagreiningu. Sigurður segir útlit fyrir að þessi markmið náist ekki að óbreyttu.

Þá hafi fólksfjölgun á Íslandi verið langt umfram spár og væntingar á síðustu misserum sem eykur enn frekar á íbúðaþörf. Samkvæmt tölum Hagstofunnar fjölgaði landsmönnum um tæplega 11,5 þúsund árið 2022 og um 3 þúsund á fyrstu þremur mánuðum þessa árs, einkum vegna fjölda innflytjenda. Til samanburðar gera opinberar spár ráð fyrir að landsmönnum fjölgi um 3-5 þúsund í ár sem augljóslega er vanmat.

Viðtalið við Sigurð birtist í Fasteignablaði Viðskiptablaðsins sem kom út í dag.

Heimild:Vb.is