Home Fréttir Í fréttum Færeyingar byrjuðu á enn einum jarðgöngunum í dag

Færeyingar byrjuðu á enn einum jarðgöngunum í dag

143
0
Formaður bæjarráðs og bæjarstjóri Þórshafnar, þeir Tróndur Sigurdsson og Heðin Mortensen, hleyptu verkinu af stað með fyrstu sprengingu í dag. KRINGVARPIÐ

Færeyingar hófu í dag að grafa enn ein jarðgöngin, að þessu sinni tveggja kílómetra innanbæjargöng í jaðri Þórshafnar. Þetta þýðir að samtímis er núna verið að grafa sex jarðgöng í Færeyjum, til viðbótar við tvenn sem frændur okkar hafa nýlokið við.

<>

Í fréttum Stöðvar 2 mátti sjá myndir Kringvarps Færeyja af fyrstu sprengingunni í dag en það voru þeir Tróndur Sigurdsson, formaður bæjarráðs Þórshafnar, og Heðin Mortensen bæjarstjóri, sem hleyptu henni af stað. Þórshafnarbær samdi við færeyska verktakafyrirtækið Articon um verkið á grundvelli útboðs.

Frá Þórshöfn í Færeyjum. Jarðgöngin opnast í jaðri byggðarinnar. KRINGVARPIÐ

Nýju göngin liggja undir fjallið Húsareyn og verða 1,8 kílómetra löng. Þau verða hluti af nýrri sex kílómetra langri aðkomuleið inn í höfuðstaðinn úr norðri og þau fyrstu sem teljast innanbæjargöng í Færeyjum. Kostnaður er áætlaður um 6,6 milljarðar íslenskra króna og greiðir Þórshafnarbær tvo þriðju en landsjóður Færeyja þriðjung kostnaðar.

Norðanmegin munu nýju göngin opnast skammt frá munna Austureyjarganganna, sem tekin voru í notkun fyrir jólin 2020, en þau hafa reynst bylting fyrir samgöngukerfi eyjanna.

Jarðgöngin verða hluti af nýrri aðkomu inn í höfðustað Færeyja úr norðri.
KRINGVARPIÐ

Austureyjargöng eru 11,2 kílómetra löng neðansjávargöng en Færeyingar hafa einnig nýlokið gerð nýrra Hvalbiarganga á Suðurey.

Og núna eru þeir að grafa sex önnur göng: Sandeyjargöng, neðansjávargöng milli Straumeyjar og Sandeyjar, við Klakksvík eru að koma tvenn ný göng, Árnafjarðargöng og Hvannasundsgöng, á Sandey er verið að grafa Dalsgöng, á Suðurey stutt Fámjinsgöng og núna bætast við Húsareynsgöng við Þórshöfn og eiga öll þessi göng að klárast á næstu tveimur árum.

Jarðgöngin í Færeyjum sem verið er að grafa eða nýlokið er við.
GRAFÍK/KRISTJÁN JÓNSSON

Samtals eru Færeyingar þannig að fá átta ný jarðgöng á fimm ára tímabili. Hérlendis hafa ein ný göng, Dýrafjarðargöng, bæst við vegakerfið á síðustu árum. Niðurstaða þessa samanburðar: Ein göng á Íslandi á móti átta í Færeyjum. Og ef aðeins eru tekin þau göng sem verið er að grafa núna er staðan þessi: Ísland 0 – Færeyjar 6.

Heimild: Visir.is