Home Fréttir Í fréttum Ráðist í endurbætur á Vesturbæjarskóla vegna myglu

Ráðist í endurbætur á Vesturbæjarskóla vegna myglu

87
0
Stærsta verkefnið sem fyrir liggur er að skipta um þak á hluta skólans. RÚV – Ragnar Visage

Ráðast þarf í allnokkrar endurbætur á Vesturbæjarskóla vegna myglu. Meðal annars þarf að skipta um þak á hluta skólans. Skólastarf ætti ekki að raskast meðan á endurbótum stendur.

<>

Ráðast þarf í töluverðar endurbætur vegna myglu í Vesturbæjarskóla. Verkfræðistofan Efla var fengin til að greina hvort rakavandamál væru í elsta hluta skólahússins og finna orsök þeirra.

Niðurstöður skýrslunnar voru kynntar foreldrum barna í Vesturbæjarskóla í fyrri viku. Raki mældist á nokkrum stöðum í byggingunni. Mestur var hann í heimilisfræðistofu og rýmum nærri henni. Einnig í og við búningsaðstöðu við íþróttasal og nokkrum öðrum afmörkuðum stöðum.

RÚV – Ragnar Visage

Mygla greindist í sýnum á flestum rakasvæðum, segir í skýrslunni. Fram kemur í bréfi sem foreldrar barna í Vesturbæjarskóla fengu sent að áhersla verði lögð á að halda skólastarfi innan skólans og raska því sem minnst á meðan unnið er að endurbótum. Það ætti að vera hægt með ákveðnum tilfærslum.

Aðgerðir sem lagðar eru til eru til dæmis að þrífa og sótthreinsa, fjarlægja skemmt byggingarefni, stöðva leka og huga að loftskiptum. Stærsta einstaka verkefnið sem fyrir liggur er að skipta um þak á hluta skólans.

Áætlað er að ráðast í þá framkvæmd næsta sumar og vinnu ætti að vera lokið í desember 2024. Ekki kemur fram í skýrslu Eflu hver áætlaður kostnaður við endurbætur verður.

Heimild: Ruv.is