Home Fréttir Í fréttum Ný raflína til Þórshafnar gæti rafvætt bræðsluna

Ný raflína til Þórshafnar gæti rafvætt bræðsluna

93
0
Nýja línan yrði að hluta í lofti og að hluta í jörðu. RÚV – Rúnar Snær Reynisson

Landsnet skoðar nú af alvöru að leggja nýja öfluga raflínu til Þórshafnar. Framkvæmdin gæti kostað 5 milljarða en fyrir vikið væri hægt að rafvæða bræðsluna á Þórshöfn sem nú er knúin með olíu.

<>

Tengivirkið fyrir Þórshöfn er ekki hluti af flutningskerfi Landsnets heldur aðeins dreifikerfi RARIK sem er á lægri spennu. RARIK og Landsnet skoða nú fýsileika þess að breyta þessu. Landsnet taki við orkuflutningum til Brúarlands við Þórshöfn og myndi þá leggja nýja 132 kílóvolta flutningslínu. Gnýr Guðmundsson, forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti, segir að núverandi 33 kílóvolta jarðstrengur til Þórshafnar sé flöskuháls í kerfinu.

„Sá strengur er fulllestaður og nær ekki að flytja meira rafmagn til Þórshafnar heldur en er notað í dag. Þannig að það sem þarf að gera er að breyta mörkum á milli flutnings- og dreifikerfis á þessu svæði og þá yrði lögð lína frá Öxarfirði, 132 kílóvolta lína að Þórshöfn eða Brúarlandi. Og svo í framhaldinu er hægt að tengja áfram frá Þórshöfn og til Vopnafjarðar. Þar með væri komin tvítenging á þessum landshluta sem er reyndar stefna stjórnvalda. Það eiga allir afhendingarstaðir í flutningskerfinu að vera tvítengdir fyrir árið 2040. Þessi tenging til Þórshafnar gæti verið fyrsti áfanginn í þeirri tvítengingu,“ segir Gnýr.

Bræðslan þyrfti að setja upp rafkatla til að réttlæta framkvæmdina
Ný lína til Þórshafnar myndi kosta um 5 milljarða og seinni áfanginn til Vopnafjarðar gæti kostað annað eins. Framkvæmdin er nauðsynleg vegna orkuskipta en fiskimjölsverksmiðja Ísfélagsins á Þórshöfn hefur ekki enn getað rafvæðst. Fyrri hluti áformanna myndi strax gera það mögulegt.

„Hún hefur verið keyrð á olíu sem er ekki gott svona í ljósi orkuskipta og losunar. Þannig að hún gæti strax farið yfir á rafmagn við þetta og þyrfti eiginlega að gera það til að réttlæta þessa framkvæmd. Og svo eru bara orkuskipti í samgöngum og landflutningum og fleira sem krefjast þess að það verði bætt við meiri afhendingargetu á þessu svæði,“ segir Gnýr Guðmundsson, forstöðumaður kerfisþróunar hjá Landsneti.

Heimild: Ruv.is