Home Fréttir Í fréttum Vaðlaheiðargöng ári á eftir áætlun

Vaðlaheiðargöng ári á eftir áætlun

191
0

Stjórn Vaðlaheiðarganga fór á fund fjárlaganefndar í morgun og fór þar yfir gangagröftinn, fjármögnun á framkvæmdum og áætluð verklok. Gert er ráð fyrir gegnumslagi í haust og að göngin verði komin í notkun í desember 2017.

<>

Gröftur Vaðlaheiðarganga hefur síður en svo gengið áfallalaust fyrir sig. Heitt vatn hefur gert verktökum lífið leitt Eyjafjarðarmegin og í Fnjóskadal er nú fyrst hafin vinna við að loka stórri sprungu sem opnaðist í lofti ganganna með þeim afleiðingum að þau fylltust af vatni.

Þegar sprungan opnaðist óskaði fjárlaganefnd eftir upplýsingum frá stjórn Vaðlaheiðarganga um tafir og aukinn kostnað. Í svarbréfi stjórnarinnar kom meðal annars fram að kostnaður gæti aukist um allt að einn og hálfan milljarð og að töf á opnun ganganna gæti verið um eitt ár.

Stjórnin sendi síðan annað bréf í byrjun desember, þar sem farið var yfir stöðu mála. Fjárlaganefnd og stjórnin náðu þó ekki að hittast á fundi fyrr en í dag. Í bréfinu kemur fram að líkur séu á því að gangagröftur geti hafst nú í febrúar eða mars, en eins og staðan er í dag er vinna við að fylla upp í sprunguna rétt hafin. Líklegra er því að gröftur hefjist að nýju í mars.

Þá segir í bréfinu að gert sé ráð fyrir að tvö borgengi verði við störf, annað fari frá Fnjóskadal en hitt frá Eyjafirði. Sú sviðsmynd þýði að líklega verði verklok í árslok 2017 en að gegnumslag, þ.e. síðasta sprenging, geti verið í október á þessu ári. Þó er alveg óljóst hvort frekari tafir verða á verkinu og hvort fleiri sprungur opnist, en þessi áætlun gerir ráð fyrir því að borgengi fari samanlagt áfram um 80 metra á viku. Til samanburðar fór borgengið Eyjafjarðarmegin áfram um rúma 30 metra í fyrstu viku febrúar, en meðaltalið er um 44 metrar.

Ófyrirséður kostnaður hefur hækkað um einn og hálfan milljarð króna og stefnir nú í að verða um 2,2 milljarðar króna. Samkvæmt bréfi stjórnarinnar, er ekki gert ráð fyrir því að sá kostnaður hækki þar sem of mikil óvissa sé við gangagröftinn og slík spá því ómöguleg. Auðveldara verði að spá fyrir um frávik frá kostnaði eftir gegnumslag.

Að lokum segir í bréfinu, að ljóst sé að lánið sem nú sé verið að draga á til að greiða framkvæmdakostnað muni ekki duga til að klára verkið. Hinsvegar telji stjórnin að framkvæmdin muni standa undir sér, þó skuldsetning verði aukin. Það sé verkefni sem leysa þurfi í samvinnu stjórnar, hluthafa og lánveitenda.

Heimild: Rúv.is